hlaupin og lífríkið...

Héðan úr sveitinni eru bara góðar fréttir, veður með eindæmum, heiðskýrt í 8 og hálfan dag af 10, enda tók ég pásu frá sólinni og gerðist erindreki á Húsavík sem að vísu tók á móti mér með sól, en verkefni dagsins útilokuðu að hennar yrði með nokkru notið.  Hlaup ganga svona bara nokkuð vel, síðasta vika enda í rúmum 60 km, og vóg 33 km túr á laugardeginum þar ansi þungt.  Er kominn í rétt um 45 km í þessari viku og gæti hún endað í kringum 80 km ef plön halda. 

Fréttaflutningur Moggans, sem aldrei lýgur eins og alkunna er, var ótrúlegur á síðasta sunnudag.   Þar var því slegið upp að uppgangur lífríkis Mývatns væri með ólíkindum og það væri að sjálfsögðu því að þakka að Kísiliðjan hætti starfsemi fyrir 3 - 4 árum síðan.  Að lífiðríkið er í miklum blóma má sannarlega til sansvegar færa, en að það megi rekja til lokunnar Kísiliðjunnar er argasta bull svo það sé sagt hreint út.  Fréttamennska eins og birtist á síðum blaðsins téðan sunnudag var klassísk dæmi um kranablaðamennsku eins Jónas Kristjánsson hefur gagnrýnt svo mjög að viðgangist á Íslandi.  Um þetta gæti ég ritað langt mál en nenni ekki í augnablikinu en langar að nefna tvö atriði.  Því var haldið fram, um margra ára skeið, af Árnum þeim sem talað var við í fréttinni að það tæki nokkur hundruð ár fyrir lífríkið að rétta sinn kúrs eftir inngrip kísilnámsins.  Viðgangur flugu og fugls hefur sjaldan verið betri en í ár aðeins fáum árum eftir stöðvun vinnslunnar.   Var vatnið þá ekkert svona skemmt eins og endalaust var haldið fram?  Veiði í vatninu er á uppleið, en hvar skildi sú veiði vera?  Jú hún er á unnum svæðum vatnsins, því þar er dýpi og gróska í lífríkinu fyrir silunginn.  Það er einfaldlega staðreynd að djúpum svæðum vatnsins hefur fækkað mikið og eru sum hver orðin svo slæm að þar þrífst ekki neitt líf.   Bleikjan þrífst best við 8 gráður en á sumrum er vatnið farið að ná 16 gráðum við útfall og staðbundið nokkuð hærra.  Það má jafnvel undrast að nokkur bleikja þrífist í vatninu eins og komið er.  Þar koma skurðirnir bleikjunni þó að nokkurri hjálp, því þar finnur hún ennþá viðunandi kulda í vatninu.  En nei, þetta er allt kísilnáminu að kenna, eins og Árnarnir geta samviskulega.  Þrátt  fyrir að námuvinnsla hafi verið í vatninu í næstum 40 ár er einungis búið að vinna svæði sem nemur 15 - 20% flatarmáli vatnsins og það einungis á svæði sem kallast Ytri-flói.  Engan þekki ég bónda sem býr við Ytri-flóa sem mótfallinn hefur verið námuvinnslu úr vatninu... ættu þeir ekki að hafa verið þeir sem mest voru andsnúnir vinnslunni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll meistari

Ég held að maður geti með sanni sagt að maður öfundi þig núna, hér í DK er bara rigning og aftur rigning, mesta rigningarsumar síðan 1947. Maður hefur aldrei séð annað eins rugl, það var búið að spá hitabylgjusumri, en það rataði víst ekki hingað, það stoppaði á Íslandi og virðist ætla staldra við þar.

Enn eitt mál Halli. 80% af vinum þínum eru annálaðir fótboltaáhugamenn........Það finnst engum gaman að lesa hlaupaskýrslur....eins og engum finnst gaman að horfa á maraþon í íþróttaþætti sjónvarpsins. Það er eins og að horfa á málverk þorna.

Farðu að tjá þig um fótbolta, viðskipti og pólitik................nei annars, slepptu pólitikinni

Hvað er að frétta af Aston Villa ? :-)

Bestu kveðjur frá Lyngby

 Biggi

PS: Var með Annata-Pétur í heimsókn hjá mér um daginn í mat hér......hress drengur

Birkir Holm Guðnason (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband