Húsavíkurþríþraut 2004

Húsavíkurþriþrautin var haldin um síðustu helgi og hófst klukkan 10 að staðartíma. Veður var gott, sól og næstum logn og hitinn um 16 gráður. Þríþrautin skiptist í 1 km sund, 40 km hljólreiðar og loks 10 km hlaup. Þetta var eitthvað sem ég hafði aldrei prufað svo það var rennt svolítið blint í sjóinn hvernig þetta væri. Fyrir undirbúningi fór lítið, nema með spjalli og ráððleggingum. Villi Páls sagði að ég hafi verið þokkalegur sundmaður í grunnskóla og við það batt ég nokkrar vonir. Hjólreiðar kunna allir, þannig að það hliti nú að ganga og svo er maður víst alltaf eitthvað hlaupa þannig að ég var bara brattur þegar ég stakk mér til sunds. Hversu barnalegur getur maður verið?

Sundlaugin á Húsavík er 16 metrar og einn þriðji á lengd og 3 synda saman á sömu braut. Kallinn tók auðvitað snöfurmannlega af stað og tók eftir, eftir ca. 66 metra að ég var með fremstu mönnum, djöfull var ég góður. Eftir 100 metra var því lokið og mér næstum öllum lokið! Þvílík tilfinning... aaaarrrrrrg... ég var sprunginn og aðeins 900 metrar eftir. Ég hugsaði með mér að nú hefði ég gert lífs míns mistök og ég hreinlega gæti ekki klárað sundið. Orðspor mitt sem íþróttamanns á Húsavík var að fara í súinn og í staðinn yrði ég þekktur sem maðurinn sem gafst upp í fyrstu grein eftir að hafa verið bjargað frá drukknun. Ég bæði skipti í bringusund, steig í botninn á miðri leið og staldraði við, við bakann til að reyna halda lífi. Áfram var buslað og buslað og reynt að vera ekki fyrir í lauginni þegar keppinautarnir þeystust frammúr, aftur og aftur. Mörgum ferðum síðar náði ég þó áttum og gat synt svona þokkalega síðasta spotta sundsins. Enda kanski ekki furða, það var enginn að trufla mig í lauginni... það voru allir farnir!!! En loks heyrði ég þul keppninnar tilkynna að Haraldur væri að leggja í sína síðustu ferð, það var mikið fagnaðarefni. Upp úr þessu helvíti var ég fljótur, hljóp í gegnum afgreiðsluna á lauginni og út að hjóli þar sem skór, sokkar og bolur biðu. Mér til mikillar undrunar virtust sumir hafa ákveðið að fá sér hárnæringu því ég hafði við þessa skipulagningu náð nokkrum keppendum.

Hjólreiðarnar byrja á 800 metra brekku og nokkru síðar 2 km brekku en nú niður á við sem þurfti að vísu að byrja á að keppast við aftur þegar snúið var. Hjólað var aftur til bæjarins og í gegnum hann til suðurs, fleiri brekkur voru þar á leið. Snúið var enn 7 km sunnan við Húsavík og aftur haldið inn í bæ. Farnar voru 4 svona ferðir og breyttist sætaskipan ekkert hvað mig áhrærði. Fagálit var að leiðin væri svona mitt á milli þess að vera götubraut og fjallabraut. Allir sem ég hafði talað við fyrir keppni sögðu mér að passa mig á því að spreyngja mig ekki í hjólreiðunum svo ég reyndi að vera skynsamur, sérstaklega eftir lífsreynsluna í lauginni. En helvíti var þetta erfitt. Sigurgeir aðalkeppinautur minn fjarlægðist mig þó sífellt á leiðinni og í síðustu ferðinni var ég alveg búinn að tapa af honum sjónum. Þegar ég kom í mark eftir hjólreiðarnar var víst markmiðið að spretta af stað. Hlaupið átti jú að vera minn sterki hluti. Það verður þó að viðurkennast að það er ekki heglum hent að láta lappir láta af stjórn þegar af hjóli er stígið eftir 40 km. Hlaupastíllinn minnti á mann sem er alvarlega spastískur með fullri virðingu fyrir þvíumlíku.

Hlaupnir voru tveir 5 km hringir í bænum og mér tókst það ómögulega (enda ekki búinn að lesa brautarlýsingu fyrir hlaup) að hlaupa ranga leið. Á leið niður að Kísilskemmu komu voðalega prúðir drengir sem ekkert voru neitt að nota alltof mikinn hávaða og sögðust halda að ég hafi átt að beygja fyrir nokkru af þessari leið. Ég rölti áfram og spurði hvort þeir væru vissir, já þeir héldu það. Og vegna þess að þeir héldu það þá snéri ég við. 400 metrar aukalega þar. Það var alveg það sem ég þurfti. Fífl.. ég sko. Eftir 5 km sá ég Sigurgeir aftur og þegar 4 km voru eftir voru kanski um 300 metrar í hann og ég fór að hugsa að þetta mundi takast að vinna hann. Það var fáum mínútum síðar sem það hitti mig... ég var búinn, fínídó, ekkert eftir. Sigurgeir var ekki málið á þeirri stundu, nei málið var komast í mark og þá helst á joggi. Aldrei fór ég á lapp og kláraði þrautina í 3ja sæti, sem eiginlega ekki rétt því ég var fjórði í mark, því önnur í mark var ensk stúlka sem var gífurlega öflug, en þar sem svona keppnir eru nú alltaf kynjaskiptar þá telst ég hafa verið í þriðja sæti.

Skipulag keppninnar var mjög gott, nóg af vatnsstöðvum, þar sem líka var boðið upp á orkudrykki, og talsvert af fólki að horfa á. Mæli með þessari keppni fyrir þá sem vilja prufa eitthvað öðruvísi og koma í þennan ljúfa bæ sem Húsavík er. Hefði ég getað gert betur? Kanski ekki eins og staðan var á laugardagsmorguninn, en smá sundæfing er greinilega mjög æskileg og jafnvel líka hjólreiðar. Við sjáum til hverju maður nennir á næsta ári. Það liggur að vísu fyrir að sá sem hefur haft áskrift að sigri undanfarin ár verður ekki með að ári, þannig að kanski maður stíli inn á þetta á næsta ári og mæti svolítið betur undirbúinn. Það dugir allavega ekki að hafa mætt í sund hjá Villa Páls fyrir 25 árum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband