Er Pétur Frantz besti ljósmyndari í heimi?

Hljópt hálft maraþon í dag í fallegustu sveit landsins - Mývatnssveit, í þessari líka bongóblíðu, kanski ekki óskaveður hlauparans, en hver erum við að hallmæla heiðskýrum himni og logni?!?!?   Það geri ég allavega ekki, en það var ári heitt.  Árangurinn var 1:27:49, sem er bæting um 4 mínútur og þriðja sæti í hlaupinu.  Bara kátur.  Yfirljósmyndari á myndavélina mína var Pétur Frantz og stóð hann sig vafalaust ágætlega, en þá miða ég við fólk sem ekki hefur handfjatlað myndavélar mikið.  Hann tók mikið af myndum, af loftinu í bílnum sínum, líka gólfinu, götunni og síðan væntalega líka innan á lokið sem er framan á linsunni.  Hvað um það, eitthvað má nota og verður það allt sett hér þegar ég kemst úr 73K símasambandstengingu við internetið.  Flottur dagur, þar sem aldrei sáust fleiri en 8 flugur á lofti í einu og þær langaði ekki frekar að bíta mann en að Pétur kynni að taka ljósmyndir.


Sól, sól, skín á mig..

Aldeilis snilldarveður í borg bleytunnar í dag og því ekki annað að gera en svipta sig úr bolnum rétt eftir af stað var farið á æfingunni í dag.  Klassa æfing hjá Foringjanum með 1mín 2mín 3 mín 4 mín 3mín 2 mín og 1mín með jafnlangri hvíld á milli, og 10 mínútna rólegu á undan og eftir.  Garmurinn minn sýndi bara 10,2 km en ég klúðraði þessu algjörlega á hlaupunum, því ég stoppaði klukkuna tvisvar í stað þess að styðja á lap.  Æfingin gerði samkvæmt Garmin, að vísu gömlu gerðunum, 11,3 km.  Algjör unaður að hlaupa í svona blíðu og talandi um blíðu þá stefnir í ofurblíðu í sveitinni fögru – Mývatnssveit, um helgina.  Maður verður bruna þangað og taka hálft maraþon á laugardaginn.  Það kæmi mér ekki á óvart þó það yrði um og yfir 20 stiga hiti og sól, maður fer nú varla að hallmæla því – unaður.


19. júní

Ég væri að ljúga ef ég viðurkenndi ekki að ég hefði strengi framan í lærunum, sem mér að vísu var tjáð á hlaupaæfingunni í kvöld, að ýmsir félagar mínu teldu eðlilegt að gera.  En ég er heiðarlegur maður (þangað til annað verður sannað á mig) og læt þess því getið hvernig ástatt er.

Hefðbundinn Grafarvogshringur á æfingunni, tempó afslappað fyrrihlutann en síðan tekið aðeins á því seinnihlutann.  Veður fínt, þurrt og pínu sól og léttur vindur og hitinn vafalaust ágætur.  Náði með smá aukahring að klára 11 km.  Ég held ég taki frí á morgun, maður verður að auka álagið með skynsemi.

Ps. Hljóp stoltur með bleika UNIFEM armbandið í tilefni dagsins.


Er Esjan málið?

Hljóp á Esjuna í dag, já eða hljóp og labbaði.  Ágætis veður þó sólin léti nú ekki sjá sig, en þurrt.  Fór merkta leið upp en ekki stystu leið eins og margir fara.  Þetta er auðvitað hálfgert klöngur þarna þegar uppfyrir miðja hlíð er komið, en þess á milli er þetta fínt.  Þegar ég kom upp að Stein (held að kletturinn þarna fyrir neðan Þverfellshornið heiti Steinn), ákvað ég klára dæmið alla leið.  Búið er að koma fyrir keðjum í klettabeltinu sem er mjög til bóta og auðveldar dæmið mikið að komast á toppinn.  Þegar upp var komið og ég ætlaði að fara að skrá nafn mitt í Gestabókina, uppgötvaði ég, að ég var krókloppinn, þannig að það var rétt að ég kom nafninu mínu í bókina.  Ég var á stutterma örþunnum Asicsbol og stuttbuxum sem hentaði mjög vel þegar ég var niður í Laugum að klæða mig.  Ekki fór ég sömuleið niður, heldur vestar en ég kom upp.  Þar er hlíðin snarbrött og hálfgerðar skriður og í stuttu máli munaði minnstu að ég yrði aðalfréttaefnið í dag, þegar ég náði fyrst standa af mér þegar hægri öklin valt ég varð að vera eldsnöggur að færa þungan af löppinni til að forða meiðslum, síðan þegar ég hoppaði út á skafl og steinlá og byrjaði að renna af stað og stefndi í urð og grjót, en náði að stoppa áður en í óefni kom.  Eftirleikurinn var tíðindalaus.  Ég var 57 mínútur upp á topp, en heildar ferðatími var 1 klst og 16 mínútur og Garminn sagði 8 km.  Og hvað svo?  Nú ekki að fara meir á Esjuna til æfinga, Úlfarsfellið er málið.


17. júní

Loksins klassískur laugardagur.  Mætti með Larsen-félögum, við tækin í Grafarvoginum og klassískur hlaupahringur var tekinn.  Mættir voru: Ég, Ingibjörg, Alli, Kalli og Gautur og rétt eftir að af stað var farið bættust Jón Kristinn og Birgir í hópinn.  Veðrið flott til hlaupa, lygnt og skýjað, en ekki rigning því hún hafði hætt rétt áður en af stað var farið.  Fylgdum norðurströndinni í Reykjavík að miðbænum, þar sem við skárum fram hjá Austurvelli, þar sem hátíðahöld stöðu sem hæst.  Þetta var í fyrsta skipti sem ég var staddur á Austurvelli á 17. Júní, því var þetta nokkuð merkilegt.  Áfram var haldið framhjá háskólanum, Suðurgatan, Ægissíðan og upp Fossvog.  Ég ákvað að kveðja um miðbik Fossvogs og gaf aðeins í og hljóp upp fyrir stíflu og niður hinumeginn, þannig ég endaði í 26,5 km sem er það lang lengsta hlaup sem ég hef tekið síðan í London.  Nú er bara að vera duglegur næstu vikurnar og reyna spóla inn eitthvað þol fyrir Laugaveginn.

Ps. Til hamingu með daginn, kæru samlandar.


það er þetta með hæfnina..

Tók 10 km hring um póstnúmer 104 í gærkvöldi, þar sem ég kom við á Laugardagsvelli og tók 5 * 400m spretti.  Inniæfingarnar í vetur gerðu mér ótrúlega gott og því ég ákvað að gera þetta til að fá hjartað aðeins í gang, eftir allt lullið sem verið hefur á manni síðustu vikurnar.  Það var hressandi að hlaupa þarna á tartaninu og fíla þjóðarleikvanginn smá, þó varla sé nema rétt fokheldur um þessar mundir.

Ég sé að félagi Gunnlaugur er ánægður með rökstuðning Háskólarektors við ráðningu í stöðu dósents í tölvunarfræðiskors, vegna þess “að einfalt kynjahlutfall eigi ekki að ráða ferðinni með ráðningu einstaklinga í stöður í Háskólanum heldur eigi hæfni umsækjanda að ráða.”  Kæri Gunnlaugur um þetta má hafa langt mál og nefna að í deildinni eru núna 11 karlar og 1 kona sem margir vilja meina að hafi ákveðna vigt þegar ráðið er í laus störf, en látum það liggja milli hluta og lítum á hæfnina.  Það var einfaldlega niðurstaða kærfunefndar að stór munur var á hæfni umsækjanda, konunni í vil. Hún var með doktorspróf, kennslufræðipróf, yfir áratugar reynslu á sínu sviði, glæsilegan rannsóknarferil og fjölda birtra greina í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum.  Hann var betur tengdur innan deildarinnar og svo var nefnt “samskiptahæfni”.  Strákarnir í deildinni vildu einfaldlega “nice guy” en ekki konuna.  Hæfni og reynsla, hvað þá markmið skólans að komast í röð 100 bestu, hafði ekkert með málið að gera, það var nefnilega kynferði sem réði för og því ættum við félagi Gunnlaugur, að fordæma ráðninguna.


Meiri umferð, það er lausnin...

Hljóp 10 km í gær frá Laugum, veðrið var ljúft, sem verður ekki alveg sagt um veðrið fyrir utan gluggan í augnablikinu.  Það bar helst til tíðinda í gær að ég hljóp upp á einstakling á rafmagnshjólastól sem var næstum rafmagnslaus, rétt fyrir ofan Laugardagshöllina.  Að sjálfsögðu bauðst maður til að ýta viðkomandi (brekkan upp að ljósum var stólnum ofviða).  Ég kom honum yfir ljósin, en þá taldi sá í hjólastólnum þetta fínt og þakkaði pennt.  Við Hátún náði félaga hans sem var á svaka skriði að ná í rafmagn á brúsa og sagði honum að taka það rólega, félagi hans væri á leiðinni.

Þetta leiðir nú hugan að því að mikilvægasta samgöngumál Reykjavíkur eru mislæg gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar, samkvæmt nýjum meirihluta í borgarstjórn.  Hálfvitar, já segi það bara aftur.. hálfvitar (þó þetta sé ekki málefnalegt).  Í síðustu viku er birt niðurstaða rannsóknar þar sem kemur í ljós að það er ekki einungis í kringum Miklubraut, mengunarástand fyrir ofan hættumörk, heldur líka inn í Vogum.  Sem sagt bílaumferð í Reykjavík er slík að hálfborgin er í mengunarskýi oft á ári.  Meiri umferð, það er lausnin.  Svo þykjumst við Reykvíkingar hafa áhyggjur af fólki sem ætlar að búa nærri álverum, þessi bílamengun hér í höfuðborginni er langtum hættulegri heilsufólks, heldur en mengun frá álverum.  Meiri umferð, það er lausnin, að eilífu – Amen.


Myndir frá Gullsprettinum..

http://internet.is/kristveigh/Gullspretturinn/index.htm

Sjáið lognið!


Svíar?!?!? Eru það grýlur???

Eftir að strákarnir okkar höfðu lagt Svía, þá bara varð ég að fara út og hlaupa.  Verð þó að opinbera að ég er helfvíti slæmur í bakinu í dag, kenni ekki sjálfu hlaupinu í gær um það, heldur að ég hitaði ekkert upp og teygði því ekki neitt og sökin liggur hjá mér.  En allavega þá taldi ég það góðan kost að taka hlaup og sjá hvort þetta lagaðist ekki á leiðinni.  Það var ljóst að Guð var búinn með allt vatnið í dag, þegar ég fór af stað seinnipartinn, þannig að ég hljóp úr sundunum inn í Grafarvog, víkurhverfið, út á vesturlandsveg, upp hjá Stöð2 og yfir í Elliðaárdalinn, fyrsta brú á Miklubraut og heim – samtals 19,2 km.  Ég var miklu betri í bakinu eftir 3 km og eftir teyjurnar í lok hlaups bind ég vonir við að ég verði talsvert betri á morgun.... og með hjálp íbufen og veltaren rapid.

Djöfull er nýi gerfihnatta diskurinn minn góður!!!  Fjárfesti í Elko í disk fyrir um 20 kr. þúsund, föstudagskvöldið fór að henda honum upp og síðan kom frændi minn og stillti hann rétt og BBC og ITV ásamt örugglega helling meir opið fyrir mér í digital gæðum.  Hefði getað borgað Sýn 15 þúsund fyrir mánuð, en hey, þetta er málið.  HM leikirnir allir sýndir í breiðtjaldsútsendingu í frábærri lýsingu, síðan kemur hálfleikur og þá tekur Lineker við ásamt valinkunnum snillingum úr enska boltanum og fara í gengum gang mála í korter.  Engar auglýsingar og bull – þetta er bara frábært.  Hef nú ekki nennt mikið að kynna mér hvað þarna er á dagskrá en til að nefna eitthvað sem ég hef séð á sappi mínu er CNN, SKY news, 24, Footballers wifes, Ophra og þá hlýtur haugur að vera í viðbót.  Síðan bara til að segja það, Noregur, Svíþjóð og Danmörk sýna öll leikina á opinberum stöðvum, því stærsta íþróttamót í heimi hlýtur að eiga koma til fólksins óháð efnahag.


Gullspretturinn..

Fór austur að Laugarvatni í dag til að taka þátt í Gullsprettinum (hringurinn um Laugavatn).  Að vanda mætti ég 10 mínútur í start (þetta er orðið að leiðum vana),  en var svo heppinn að Magga félagi minn úr Skokkhópi Fjölnis sá um skráningu meðan ég fór á settið.  Upphitunin var tekin með hlaupum á staðnum meðan leiðinni var lýst í fáeinum orðum fyrir start.  Veðrið var klikkað, svo mikið logn að manni var erfitt um andardrátt, skýjað og rakastígið 98%.  Mættir voru ja.. nú veit ég ekki.. ef löggan hefði talið á útifundi Náttúruverndarsinna - 20 manns, en tala náttúruverndarsinnanna væri 60 manns, sem  þýðir að þátttakendur voru 40 - 50.  Talið var í og allir af stað, þarna voru nokkrar hlaupakempur og ætlaði ég að reyna að vera svolítið yfirvegaður, sérstaklega þar sem ég hafði ekki náð pulsinum upp fyrir 53 áður en af stað var farið.  Hljóp á hæla Ævars og Bryndísar Ernst til að byrja með, ég ætlaði sko ekki að tapa fyrir Ævari Glottandi.  Jæja eftir 400 metra byrjar fyrsta mýrlendið með bleytu og vosbúð og mér tekst meira segja að hálft detta í mýrardrullu eftir 1 km og sparka moldardrullu upp í mig, í björgunarskrefunum.  Fjallageit dettur ekki flöt, þá hefði ég hætt!  Fyrsta áin kom í kjölfarið, við erum að tala um mið læri og maður fann að þetta var smá sjokk fyrir lappirnar og líka djöfuls puð, ekki síst að tosa sig upp á bakkann og þannig reyndust margar árnar (lækirnar) vera, sem sagt aðdjúpir.  Þarna fór ég fram úr Ævari og Bryndísi og sá þau ekki mikið meir, en það var læknis andskoti á hælum mér lengi vel.  Þegar 2 km eru liðnir af hlaupinu er ég í 4 sæti og að mér sýnist ljóst, að verður á brattann að sækja að breyta.  Ekki bætir úr skák, þegar Birkir Marteins kemur fram úr og eftir 3 km eru þeir meira og minna horfnir sem á undan eru, allavega 200 metrar í næsta mann og læknirinn á hælunum á manni.  Meiri mýrar og runnagróður og ár, sjaldan “bara gott” undirlag heldur áfram.  Þegar ca. 4 km er búnir er komið að stórri á sem búið var  að vara við að reyna ekki krossa nema við merktar stikur (það væri djúpt þrátt fyrir að styttingar möguleikinn væri talsverður).  Þegar ég er brölta upp úr ánni sé mann ekki ólíkum Bibbu manni að nafni Ásgeir, taka strauið beint út í á 200 metrum fyrr en ég hafði farið.  Ásgeir nær að hlaupa langleiðina, en áin er miklu breiðari þarna, áður en hann kastar sem fram og syndir síðustu 10 metrana.  Hann kemur upp á bakkann næst á undan mér, svona 50 metra og hefur grætt á mig nokkur hundruð metra og farinn fram úr örugglega  5 – 10 manns.  Síðari hluti hlaupsins hefur ekki eins mikið af ám/lækjum en þeim mun meira af drullumýrarfúafenum þar mjög krítískt getur verið að velja rétta slóð að hlaupa.  Í þessu stóð gamla landsbyggðarfjallageitin sig vel, enda gerðist það rétt við 6 km að læknirinn og Ævar héldu að þeir væru að vinna á mig, en völdu að fylgja ekki í sporin mín, heldur ana bara út í botnlaust fen.  Ég get ennþá rifjað upp í huga mér, öskrin í þeim, þegar þeir voru næsta fastir uppfyrir hné í drullufeni.   Síðasti hluti hlaupsins 1 – 2 km er mikið hlaupinn í alíslenskum runnagróðri (svona 15 – 30 cm fullvaxinn) og bleytu (hún var alltaf).  Þegar þarna var komið í hlaupinu hafði ég náð fjórða manni þannig að ég lagðist á hæla hans um stund og lét hann stjórna för, síðan þegar hálfur km  var eftir og tækifærið gaf sig, tók ég sprett og náði að hrista hann vel af mér og klára í 4. Sæti.  8,5 km hlaupi var lokið á 40:40, sem er bara þokkalegt að ég held.  Þetta er stórkostlegt hlaup, svo fullkomlega ólíkt öllu sem maður er að gera almennt, stutt þannig að þrátt fyrir allt drullumallið og vaðið, þá getur maður tekið þetta á kraftinum alla leið.  Ég mæli með þessu fyrir alla hlaupara, svona tilbreyting gefur þessum hlaupum manns tilgang.  Léttur andi í þessu, Laugvetningar höfðingjar heim að sækja og svo endilega gerið þetta að árvissum atburði og við hlauparar mætum þarna og jafnvel tjöldum og kætum geð guma.

Laugarvatn 2006


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband