9.6.2006 | 00:47
mínir menn? Argentína!
Frábær æfing í gær, hellirigning og dagskráin 10*90*90. Um að gera að tækla rigninguna með svona látum. Komst ekki á Úlfarfellið í dag og verð ég eiginlega að biðjast afsökunar við Sigríði Klöru ef hún hefur mætt ein ég sagðist koma í gær. Hljóp 6,7 km áðan á 28 mínútum sléttum, þannig að dagurinn fór nú ekki alveg fyrir bý. Held að Gullspretturinn sé málið á laugardaginn.
Jæja nú gerist Haraldur spámaður í eigin föðurlandi. Það er hellast þessi svakalega hæð yfir danaveldi og HM í Þýskalandi þetta stendur í 4 8 vikur. Það hefur meðfylgjandi afleiðingar: það er að skella á super sommer í Danmörku Danmörk er málíð í sumar. Það verða suðlægar áttir á Íslandi á sama tímabili og það þýðir rigning hér og bongó blíða fyrir norðan. Svo er bara að sjá hversu mikill vámaður, spámaður maður er.
Og fyrst Nostri er yfir mér, þá er auðvitað ljúft og skilt að segja frá því að Argentína verður Heimsmeistari í fótbolta.
Varðandi Framsóknarflokkinn, þá sparkar maður ekki í liggjandi mann og því læt ég alveg vera að kommentera á hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2006 | 01:05
Bubbi 50 ára..
Fór fína ferð norður á Húsavík um helgina. Það verður nú að segjast eins og er að gróðurinn er næstum mánuði á eftir því sem gerist hér á suðvesturhorninu. En veðrið var glimrandi, sól og blíða og því hlupum við Jón bróðir ca. 20 km hring í útjaðri bæjarins. Undirlagið var mest möl og móar, eitthvað var um malbik og svolítið af snjó.... svona ala Laugavegurinn.
Tók 11,5 km hring frá Laugum núna seinnipartinn, sem upphitun fyrir stórtónleika Bubba Morteins. Veðrið var ágætt, þó það súldaði smá. Mér varð hugsað til þess að nú yrði ég bara að fara taka mig saman í andlitinu og reyna að hlaupa eitthvað af viti næstu vikurnar, ef Laugavegurinn á ekki bara verða ævintýri á gönguför.
Hrikalega var Bubbi Morteins góður áðan og að vanda þá var hann með smá blammeringar. Það er hátíðisdagur að Halldór Ásgríms hafi sagt af sér og uppskar gríðarlegan fögnuð. Öll bestu laugin voru tekin og keyrslan og hávaðinn svakalegur á köflum, og ekkert athugavert við það. Ég á svolítið erfitt með að gera upp á milli, hvað var best í kvöld, nefni nokkur lög: Aldrei fór ég suður og Rómóe og Júlia (Bubbi einn með gítar), Skyttan og Serbin (MX-21), Hirósima og Kyrrlátt kvöld (Utangarðsmenn), Talað við gluggan (Stríð og friður), Móðir og Fjöllin hafa vakað (Ego) og auðvitað var Sumarið er tíminn tær snilld (GCD). Þarna er fátt eitt nefnt frá frábæru kvöldi. Ef ég hefði mátt ráða einu lagi í viðbót á dagskrána, þá hefði ég gjarnan vilja fá heyra Bubba flytja Systir minna auðmýktu bræðra, en hvað, við værum sennilega enn niðri í höll ef allir heðfu mátt koma með uppástungu. Ég kaupi DVD´inn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2006 | 13:43
klúður..
Var að skrifa langan texta, klúðraði vistun og hann er horfinn. Þar sagði í örstuttumáli:
10 km Heilsuhlaupið 39:53 mín.
Veronika vann, Sigríður Klara önnur
Signý vann 50+
Og ég er að fara norður í sólina, góða hvítasunnuhelgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2006 | 22:46
Valdið er ljúft..
Hörkuæfing í dag, þar sem tekið var 4*30*1 og í framhaldi af því 10 mínútna tempó hlaup sem átti að vera stig aukandi. Byrjuðum á pace 4:15, enda á leið upp brekku, síðan jókst hraðinn jaft og þétt og var síðustu mínúturnar 3:30 í pace. Eftir þetta var hlaupið á jöfnun hraða og var pólitíkin rædd sem þróaðist út í lóðaumræðu sem þróaðist út í.. bull. 12,2 km á Garmin.
Jæja þá liggur það fyrir ríkisstjórnin ræður líka borgarstjórninni. Æji.. þetta er auðvitað brandari... ekkert spes brandari en allir brandarar geta bara ekki verið góðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2006 | 15:39
hlýðið kjósendum..
Þetta eru ljótu úrslitin, en þeim verða menn víst að una og hlíða. Framsókn og Samfylking tapar (Framsókn ekki nóg), Vinstri grænir halda sjó og Sjallarnir og Frjálslyndir vinna. Að mínu viti er augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir eiga að taka við stjórnartaumum í borginni. Það eru skilaboð fólks í borginni og því eiga Björn Ingi og Dagur ekki að taka upp síma næstu daga, hvorki til að svara eða hringja.
Hvað var það síðan hjá mínum mönnum að spila I of the tiger þegar Dagur kom á Broadway, hann var nú ekki beint sigurvegari kvöldsins og því var þetta nú frekar hallærislegt. Ég hefði spilað Yesterday.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2006 | 12:08
Vörumst eftirlíkingar..
Vörumst eftirlíkingar, þetta er raunveruleikinn sem sýnir innrætið.
R-listinn:
- Grettistak í málefum leikskóla og grunnskóla
- Mikill árangur í jafnréttis og launamálum kynjana
- Menningarnótt, Airwives, Vetrarhátíð og Hátíð hafsins
- Frjálsíþróttahöll, Egilshöll og Sundhöll
- Skilvirkarastjórnkerfi fyrir alla Reykvíkinga
- Faglegar starfsmannaráðningar
- Fjármálastjórnun sem stenst áætlanir
- Mötuneyti í skólum
- Stofnun Höfuðborgarstofu
- Þjónustumiðstöðvar
Ríkisstjórnin:
- Endurteknir dómar hæstaréttar í hausinn
- Pólitískar mannaráðningar
- Enginn árangur í jafnréttis og launamálum kynjana
- Auknar birgðar á þá tekjulægstu
- Þverplankar í öllu sem kemur Reykjavík vel
X-S
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2006 | 11:49
með bíl í hjarta..
Ætla Reykvíkingar að láta íhaldið hafa þetta á morgun? Ég er ekki að efast um að Vilhjálmur er fínasti kall og vill vel, en fyrir hvað stendur flokkurinn á sýn til framtíðar. Nr. 1 kemur bílinn, bíllinn er alfa og omega í hjörtum alvöru sjálfstæðismanna, sérhver hugsun sem setur bílinn ekki í fyrsta sæti er kommunismi. Allir eru sammála um Sundabraut (kanski ekki útfærslu) og göngin undir Öskjuhlíðina úr Fossvoginum, en þrátt fyrir það staglast þeir ennþá á mikilvægi mislægra gatnamóta á Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Í dag er ekki einu sinni vesen á þessum gatnamótum, það er í lagi að bíða ein ljós á háannatíma (við búum í borg), hvaða vandamál verður þar þegar umferðinni hefur létt um 25% vegna hinna nýju stofnbrauta? Fyrir ári síðan sátu Gísli Marteinn, Hanna Birna, Kjartan og Bolli og samþykktu hugsjónir sýnar til framtíðar. Í stuttumáli, voru það tuggur um ískalda frjálshyggju sem hvergi sést í dag. Það eru í sjálfu sér ein rök til fyrir að skipta R-listaflokkunum út.... Þeir hafa setið nógu lengi og nú mega ferskir vindar blása. En þetta nota sjallarnir að sjálfsögðu ekki því það fengju þeir í hausinn á næsta ári. Sem sagt, ég kaupi ekki nýbleikan Sjálfstæðisflokk með bíl í hjarta, og ég mun ekki missa svefn yfir þessu.
Hljóp tæpa 13 km á miðvikudaginn á fínni interval æfingu hjá Foringjanum, nú síðan átti að mæta 10 í gærmorgun aftur, en ég svaf svefni hinna þunnu, svo ég hljóp um miðjan daginn 13,5 km í þessari líka bongóblíðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2006 | 01:41
BB
Stundum held ég að Björn Bjarna sé bara ekki alveg í lagi. Fram hefur komið að símahleranir voru stundaðar hér á tímum kaldastríðsins, sérstaklega voru það forustu menn sósialista og Þjóðviljans sem fyrir því urðu. Við þessum fréttum bregst BB, þannig að í fyrstalagi þá hafi þetta verið vitað og í öðrulagi séu þeir sem fyrir þessu lentu bara fúlir fyrst þetta voru bara 6 skipti. BB er dóni. Hefði ég skrifað hér á bloggi fyrir viku að hleranir hafðu átt sér stað á heimasíma Einars Olgeirssonar, þá hefði það verið afgreitt sem dylgur og kjaftæði. Það er nefnilega þannig að við sem þjóð höfum ekki talið að hleranir hafi átt sér stað gagnvart fólki sem hafði ekki annað á samviskunni en vera stjórnmálamenn. BB ætti líka að átta sig því, að þó nokkuð sé um liðið, þarf það ekkert að vera sérstaklega þægileg hugsun fyrir það fólk sem í því hefur lent, að sími þess hefur verið hleraður. Það verður seint sagt að BB sé maður mikilla hugsjóna þegar kemur að mannréttindum. Hleranir, blóðsýni úr starfsfólki og 24 ára hjónabandsreglan til að nefna eitthvað, svo maður minnist nú ekki á leiðinda Mannréttindaskrifstofuna sem alltaf var með einhver leiðinda athugsamdir... bara lokenni.
Hlaup dagsins 11,5 km samkvæmt.. nei, já ok Garmin dó á leiðinni, svo mitt fína tempó seinnihlutan í dag verður aldrei sannað með vísun í gögn og hefur því væntalega aldrei átt sér stað. Það var heitara að hlaupa heldur en ég gerði ráð fyrir áður ég lagði af stað, enda klæddur vindbuxunum fínu frá Boston sem gerðar eru fyrir 20 stiga frost og vind. Þær rétt dugðu í dag.
Ps. Ævar til hamingju með tímann, ég hef greinilega nýtt markmið fyrir næsta hlaup.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2006 | 18:53
Det skal nok blive til noget..
Verum ekkert í dúdrandi meðvirkni varðandi veðrið, segjum það bara hreint út: Djöfulsins kuldi er þetta! Jú jú það brosir sólin, en þetta fer auðvitað að verða ágætt af vetrinum 2005-6. Svona er veðurspáin á Mogganum og ekki lýgur Mogginn eins og oft hefur komið fram: Norðlæg átt mánudag til föstudag, víða hvassviðri á mánudag og þriðjudag, en annars hægari vindur. Slydda eða rigning N- og A-lands og kalt í veðri, en úrkomulítið og allt að 10 stiga hiti sunnanlands. Þett er unaður... not!.
Mætti 9:02 í morgun í Grafarvogslaug og hafði þar með misst af Magna og Möttunum út, því það átti að leggja af stað kl. 9:00. Birgir beið þó rólegur og tókum við útspeguleraðan hring um Laugardalinn, Snorrabraut, Nauthól og Fossveginn heim. Tókum þetta ósköp rólega, vorum á 5 í pace. Það bar helst til tíðinda og að sjálfsögðu af þvílíku mikilvægi að það verður að koma fram hér, að postulín var notað til mikilla hægðarauka hjá Esso og síðan mættum við þeirri merkiskonu Evuogco á Snorrabrautinni. Annað gerðist ekki fréttnæmt í dag. 22,65 km á Garmin og tíminn 1:58.
Kaupmannahafnar maraþonið er á morgun með flottri þátttöku Íslendinga. Veðurspáin er copiering frá Londonmaraþon og það gerist ekki betra. Njótið dagsins og gangi ykkur vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2006 | 23:58
Gengur betur næst..
Þannig fór um sjó ferð þá, Sylvía Nótt er á leið.... vonandi bara inn í nóttina og vonandi vaknar Ágústa Eva í fyrramálið, endurnærð eftir svolítið mikla fjarveru. Ég ætla að vísu ekki að falla í þanna flokk sem væntanlega er all fjölmennur, að fordæma konceptið í kringum Silvíu Nótt og allt uppitstandið í Aþenu. Eitthvað verður til bragðs að taka, þrátt fyrir oft fínustu lög, þá nágum við ekki í gegn og lendum því vanalega í sætum 16 22. Við höfum fjórum sinnum náð að vera í einu af 10 efstu sætunum: Eitt lag enn 4, Nei eða Já 7 (hvað var þá að Evrópubúum?!?!?), All out of luck 2 og Open your heaart 9. Evróvision er ólíkindakeppni og í henni erum við svona eins og Malta, fallegt land en aldrei kosið. Nú hefur þetta verið prufað og sami árangur og með sigurlagið í fyrra, sem sagt enginn árangur. Gaman væri að fá Ágústu Evu í viðtal í Kastljósið þegar heim verður komið þar sem hún gæti kanski varpað ljósi á það súrialíska líf sem hún hefur lifað síðustu vikurnar. Nú eigi að mjólka Nóttina meir, þá verður það væntanlega að bíða og við að líða.
Hljóp ekkert í gær og missti af svaka æfingu hjá Foringjanum með 16*1*1, það hefði verið gaman. Tek sprett æfingu á morgun til að bæta það upp. Hlupum í kvöld, upp í Heiðmörk sem var að vanda ótrúlega ljúf tilbreyting frá malbikinu. Fáir mættir og verð ég að segja að Evróvision var að höggva stærra skarð í hópinn, heldur en ég hefði trúað svona fyrirfram. Pottur í Grafarvogslaug á eftir og mættur fyrir framan imbann í góðum tíma fyrir stórbrotinn flutning Íslendinga í Evróvsion í kvöld. 12,5 km á Garmin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)