Áfram Börkur..

Eftirmál maraþonsins hafa verið talsvert með öðrum hætti en eftir mín fyrri tvö.  Vissulega fékk ég svona bærilega strengi í lærin, en að öðruleiti var ég fínn og átti létt með gang.  Ég hef verið meira og minna ónýtur eftir hin tvö.  Því var ekki annað að gera en mæta á æfingu á mánudaginn, þó kanski hefði ég átt að stytta hana aðeins.  Hljóp 9,6 km, þar sem brekkan niður frá Kók að hinu fróma fyrirtæki Framrúðunni var ekki góð.  Var orðinn ansi góður í dag og tók því fullan þátt í tempó-æfingu þar sem teknir voru 6*2mín hratt og 2 mín rólegt.  Æfingin gerði 9,7 km.  Veðrið flott 16 stiga hiti, skýjað og léttur vindur.

Mig langar að vekja athygli á hlaupi Barkar í Ölpunum sem hefst á föstudaginn kl. 10:00.  Meiri upplýsingar er að fá á http://malbein.net/blog/   Sé þetta fyrir mér sem framtíðar týpur af hlaupum.


The "hurricane" maraþon 2006

Þetta verður stutta skýrslan um Reykjavíkurmaraþon 2006.

Undirbúningur í hlaupum var ekki sem skildi, svo markmiðið með þátttöku var hafa gaman að þessu og hlaupa þetta eins skynsamlega og frekast væri unnt.  Einnig ætlaði ég að hlaupa með Hrafni Margeirs, en verð að viðurkenna að fljótlega eftir hálft maraþon stakk ég hann af -  ekkert voða stoltur yfir því, en þannig var það bara.

Undirbúningur síðustu 2 daga var að corbo-loada svona þokkalega og taka inn magnisium töflur, 3 á dag og 2 um morguninn fyrir hlaupið.   Ég hef voða trú á þessum magnesiumtöflum til varnar krampa í vöðvum, bæði með inntöku fyrir hlaup og meðan á hlaupi stendur.  Tók 3 í hlaupinu í gær og ætlaði að taka fleiri, en gaf allar magnesium töflurnar mínar fólki sem lent var í vandræðum vegna krampa í hlaupinu.

Þrátt fyrir úrkomuspá rann dagurinn upp með sól í heiði og hægum vindi, sem þó aðeins bætti í þegar leið á hlaupið.  Kom að vanda heldur seint niður í start, þannig að upphitun var nær engin, né teygjur og síðan gleymdi ég að kveikja á Garminum fyrr en rétt fyrir hlaup og hann kom bara ekkert inn fyrr ég hafði hafði hlaupið ca. 1 og hálfan km.  Þessvegna var ég nær síðastur úr startinu og rétt skokkaði þennan spöl, meðan ég beið eftir því að geta startað tímatöku.  Þetta gerði það að vísu að verkum að aðeins einn fór fram úr mér í hlaupinu, þó ég væri bara á pace 5 nærri því alla leið.  Ég pikkaði marga upp á leiðinni og þar sem maður var ekkert að flýta sér gat maður bara spjallað um stund þegar maður þekkti einhvern sem maður var fara fram úr.  Eins gaf þetta pace kost á því að taka eftir öllu því umhverfi sem fyrir bar á leiðinni og þó ég sé Íslendingur og alltaf að hlaupa um Reykjavík, þá er leiðin mögnuð og margt að sjá.  T.d. hafði ég aldrei séð Skarfaklett sem stendur í fjörunni hjá Sindra, ótrúlega flottur og ljós fjaran þar í nágreninu.  Svo fólk átti sig aðeins á því sem ég er að tala um, þá tókst mér t.d. að missa af Buckingham höllinnni, þegar ég hljóp fram hjá henni í London, því ég horfði bara á klukkuna og götuna fyrir framan mig og sá næsta lítið allaleiðina.  Ég tók 5 gel á leiðinni: 15km, 21 km, 25 km, 31 km, 37 km.  Eina magnesíumtöflu (hylki) tók ég eftir 21 km, því þá fann ég fyrir fyrirboða krampa í hægri kálfanum og síðan 2 magnesiumtöflur á 25 km og hafði plan um að taka 2 eftir 30 km.  En á 26 km hleyp ég Ásgeir Jónsson uppi, þar sem hann er eiginlega stopp vegna krampavesens og ákvað ég að gefa honum magnesiumtöflurnar og gelbréf.  Krampa einkennin komust aldrei lengre en vera einkenni og því gekk hlaupið bara fínt.  Ég var að vísu orðinn svolítið orkulaus út á Gróttu og átti ekkert gel, en þar kom félagi Börkur til hljálpar og gaf mér eitt gelbréf sem hafði mjög jákvæð áhrif síðustu kílómetrana.  Ég uppgötvaði það svona 1 km eftir Gróttuvatnsstöðina, mér til hrellingar, að ég hafði misst Adidas gleraugun úr beltinu (þau kostuðu 8000 þúsund).  Ég vissi að þetta hlyti að hafa gerst í kringum vatnsstöðina og nú voru góð ráð dýr.   Átti ég að snúa til baka og bæta 2 km við hlaupið til að taka upp 8000 þúsund kall af götunni eða halda áfram.....  ég hljóp áfram og bölvaði þessu óláni mínu.  Þá birtist Jón Kristinn bróðir þarna upp úr þurru á reiðhjóli og skutlaðist hann til að athuga hvort hann fyndi eitthvað.  Þegar 1 og hálfur km var eftir kom þessi eini sem fór fram úr mér á leiðinni, það þótti mínum manni ekki gott og reyndi ég næstu 500 metra að ná honum aftur, en hvað, ég ætlaði ekki vera að æsa mig í þessu hlaupi þannig að ég gaf þennan eltingarleik eftir og lét hann fara.  Síðustu 400 metrana tók ég síðan á góðum spretti og náði að fara fram úr þremur á síðustu 100 metrunum.  Í mark kom ég síðan á 3:34:20 og var bara kátur með það.

Frá mínum bæjardyrum séð var þetta frábært hlaup, án sperrings, frábær leið (góð breyting á leiðinni frá fyrri árum), frábært veður (þrátt fyrir yfirlýsingu sigurvegarans á RUV þegar hann kom í mark að þetta hafi verið eins og “hurricane”) og virkilega góð skipulagning á hlaupinu.  Ég held að aðkoma Glitnis að Reykjavíkur maraþon hljóti að vera besta PR sem nokkurt fyrirtæki fái þetta árið og er það bara gott mál.  Hrafn skilaði sér í mark 10 mínútum á eftir mér og var það að sjálfssögðu allt mér að þakka.  Gleraugun biðu mín í markinu.


ekki aftur snúið...

Jæja 12 tímar til stefnu, skráning frágengin og ég lasinn!  Nei það er nú kanski ekki alveg rétt, en ég er greinilega með hálsbólgu og kvef svona upp í hausinn, þetta reddast.  Keypti mér seinnipartinn Danska brjóstdropa (eru sterkari en þessir norsku) og nú er bara að sulla glasinu í sig þó smáaletrið sé eitthvað að væla um að það eigi bara að taka 10 ml 4 sinnum á sólarhring.  Ég hlusta ekki á það.  Ætti allavega að sofa eins og barn ef glasið hefst Svalur, og það væri nú nýtt, nóttina fyrir maraþon.  Áð öðruleiti er nú ekki yfir neinu að kvarta, líkaminn fínn og fín veðurspá.  Ég ætla að taka magnesíum töflur með mér hlaupið og sjá hvernig þær virka, stóla eiginlega svolítið á þær síðustu 10 km., svo var ég að spá í að hafa útvarp með mér... er það bannað?  Held bara að brjóstdroparnir séu farnir að virka... best að koma sér í svefninn... ok ekki alveg strax.


Heilt skal það vera...

Það er merkilegt með þetta land þar sem allt snýst um veðrið, að það er engan veginn hægt að fá almennilegar/nákvæmari spár bara þrjá daga fram í tímann.  Hvernig veður á t.d. að vera á laugardaginn, maður fer visir.is, mbl.is og vedur.is og jú það á að vera 12 stiga hiti, 4 m/sek og einhver rigning.  Afhverju er ekki hægt að vita spá sem gildir kl. 9 og aðra sem gildir kl. 16?  Afhverju getur maður ekki keyrt veðurspána sjónrænt á skjánum og stoppað á þeirri klukkustund sem maður hefur áhuga. 

Nóg um þetta, allavega er staðan sú að ég stefni á heilt maraþon á laugardaginn að öllu óbreyttu.  Fór 6 km með Hrafni Margeirssyni í gærkvöldi þar sem við tókum 6 * 30 sek spretti með 30 rólegu á milli, eftir 10 mínútna hlaup.  Það mátti varla á milli sjá hvor var í lélegra ásigkomulagi, ég með strengi út um allt og þungur, en hann bara meira svona þungur eftir göngur um helgina.  Ég fæ nudd á morgun og vona að það geri kraftaverk, síðan fékk ég nýja Kayano sko í dag, þeir gera örugglega kraftaverk, enda svartir og cool.  Við Hrafn hlaupum þetta saman (hans 1. maraþon) og ætli stefnan verði ekki sett á svona 3:40 plús mínus 5. 


en áfram skröltir hann þó..

Reykjavíkurmaraþon eftir 6 daga og hvað gera bændur þá, sjáum til á miðvikudaginn hvað veðurspárnar segja og kanski eitthvað líkaminn.  Hljóp 26,5 km í dag til að athuga hvort eitthvað væri eftir að formi, er nefnilega að velta fyrir mér hvort maður eigi að skrölta heilt - hálft er annars sjálfgefið.  Hvað er fólk að spá sem fer bara 10 km og er að hlaupa allt árið um kring?  Tók æfingu á fimmtudaginn, annars var kominn 7 daga pása í þetta hjá mér, ein af mörgum óskipulögðum pásum mínum í sumar.  Ég hlýt að vera svona mikil félagsvera, mér gengur bara ekkert að fara einn að hlaupa.  Var ennþá með talsverða strengi eftir fimmtudagsæfinguna í gær (og hafði gengið nokkuð greitt um gleðinnar dyr í fyrrakvöld) og því komst ég ekki fyrr en í dag.  Fallegur dagur í borginni í dag.


Dagar hinna miklu ekki hlaupa..

Það má eiginlega segja að þetta séu dagar hinna miklu áforma, en lítilla verka.  Ekki hljóp ég baun í bala í gær, en komst allaleið í það að setja á mig hlaupaskóna, belti með fullum brúsum og labba uppfyrir hús, en þá renndu gestir í hlað og sest var í sólina með þeim og tveimur tímum síðar og einum bjór, þá náttúrlega nennir maður ekki að hlaupa.  Fór þó í dag 24 km hlaup og var það bara nokkuð afrek, því veðrið var klikkað blanka logn, heiðskýrt og 24 stiga hiti.  Enda hafði móðir mín nokkrar áhyggjur af mér og sagði ég hlyti að vera klikkaður að fara af stað.  En þetta var dásamlegt hlaup, því sveitin er náttúrlega undir fögur og því æðislegt að hlaupa í þessu umhverfi.  Hitti ekki eina flugu á leiðinni, því í svona veðri láta þær lítið á sér kræla - það er of heitt.

Sé að næsta sumar verður alvöru sumar hvað hlaup varðar, því nú liggur fyrir að 2 kassar af bjór eru í veði og maður hefur nú lagt talsvert á sig, fyrir minni verðlaun að það.

Kælt sig í Mývatni


Ekki sérlega hlaupinn...

Þetta er helst í fréttum.  Á föstudaginn var fór ég niður á Húsavík til taka þátt í og upplifa "Sænska mærudaga á Húsavík".  Veðrið var klikkað (ég veit að fólk er farið að smá leið á þessu, heldur að ég ljúgi bara hiklaust þessu masi um veðrið, en það geri ég auðvitað ekki, enda með heiðarlegri mönnum) og bærinn aldeilis flottur.  Um kvöldið tók ég þátt í endurkomu Völsungsliðsins 1986 þar sem skipt var í "ungir" - "gamlir" og háður kappleikur á 7 mannavelli.  Ég var með "ungum" og okkur tókst hið ómögulega að tapa fyrir "gömlum", þó þeir væru vart hlaupafærir margir hverjir.  "Ungir" gera ráð fyrir hefndum eftir 20 ár, enda munu "gamlir" þá vera margir komnir vel á sjötugsaldurinn.  Klikki það, hætti ég í boltanum.  Yfir 400 manns mættu á völlinn til að berja þessar gömlu hetjur augum og höfðu margir á orði að þetta hafi verið með skemmtilegri leikjum sem fram hafa farið á Húsavík síðustu árin.  Laugardagurinn rann upp með sama blíðskaparveðrinu og var notaður til að njóta tívolís um daginn og góðs félagsskapar um kvöldið.  Mætti aftur í sveitina góðu á sunnudaginn og var þá orðið heldur þungbúið og ljóst að veðurskipti voru í gangi.  Hljóp í gær skemmtilegan 13 km hring í mígandi rigningu, enda kom ég drullugur uppfyrir haus í hús aftur.  Gamla góða Grjótagjáin gaf aftur il í kroppinn, enda um 44 gráður.  Nennti ekki hlaupi í dag, þó heldur hafi birt yfir þegar liðið hefur á daginn.  Markmiðið er að taka 20 km plús á morgun, enda gerir veðurspáin ráð fyrir bongóblíðu hér næstu daga.

Sé að félagi Börkur hefur staðið sig eins og hetja í Jökulsárhlaupinu og ljóst að enn og aftur hafa aðstandendur þess hlaups staðið sig með mikilli prýði.  Kanski að við á suðvesturhorninu getum lært sitthvað af Keldhverfungum.


Mývatnssveitin er æði...

Frábær dagur í dag.  Mývatnssveit tók á móti manni með bravúr og 20 gráður stóðu á mælum allan daginn.  Ekki var nú heiðskýrt, en ekki langt frá og því sit ég hér ansi heitur á skallanum.  Við Ástríður þrömmuðum á Hverfjall um hádegisbil og síðan fórum við og skoðuðum Arnarbæli (örugglega 30 ár síðan ég kíkti á það síðast).  Arnarbæli er flottasti gerfigígurinn í Mývatni sem fáir fara samt og skoða, hár gígur en gatið frekar lítið, en 20 metrar niður í gríðarlegt gímalt.

Tók hlaup seinnipartinn og fyrir fólk sem tjaldar í Vogum, þá get ég upplýst það um að það er akkúrat 12 km hringur að fara suður þjóðveg 1, að skiltinu upp að Hverfjalli, meðfram því að stígnum upp, hringurinn á Hverfjalli og sama leið til baka.  Kláraði hlaupið á 60 mínútum.  Létt grillaður á eftir.


bað og blíða..

Ekki hlaupið eitt skref um helgina, enda hefur þetta blessað bak mitt ekki alveg verið að gera sig.  Jú jú, ég viðurkenni það líka alveg að Bakkus frændi kom í heimsókn, en það réði engum úrslitum.  Því til sönnunar rölti ég með Ástríði minni (4 og 1/2 árs) í Reykjadal og fengum við okkar bað þar í gær.  Alltaf jafn magnað að fá sér bað í ósnortinni náttúru landsins.

Mikið skárri í bakinu í dag og því mætti ég á æfingu seinnipartinn.  Enda fór það svo að eftir korters hlaup fann ég ekkert fyrir því lengur og gat gefið í og fylgt fremstu mönnum.  Veðrið var draumur ca. 16 gráður og logn.  Ég var Garm-laus, því eins og stundum gerist þá var Garmurinn straumlaus þegar leggja átti í´ann (ömurlegt), en ætla að hringurinn hafi verið um 11 km.  Að hlaupi loknu gat ég síðan teygt almennilega á bakinu og geri því ráð fyrir að það verði mér ekki til frekari vandræða á næstunni.

Norðurferð á morgun í fallegustu sveit landsins, sem eins og allir vita er Mývatnssveit.  Markmiðið er reyna að vera duglegur þar við hlaupaaktívitet og kanski að formið færist þá eitthvað til betri vegar.


Pottur..

Ætlaði mér nú að hlaupa í morgun, þó bakið væri ekki alveg að gera sig, en þegar ég komst varla inn í bílinn, þá hugsaði ég "nei.. eigum við ekki segja að heiti potturinn verði að duga í dag".  Svo ekkert hlaup í dag, en ég verð nú að komast eitthvað á morgun.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband