eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár..

Við lifum á merkilegum tímum, annarsvegar afar sorglegum þar sem drekkja á stórum hluta hálendis Austurlands á næstu dögum og hinsvegar afar gleðilegum þar sem Bandaríski herinn hverfur af landinu á næstu dögum.  Tók þátt í mótmælagöngunni í gærkvöldi niður Laugaveginn, ánægjulegt hve margir mættu.  Að vanda taldi lögreglan bara annan hvern sem þarna var... ég sagði reyndar við kunningja minn að það þyrfti að fá þá sem telja á Fiskidögum á Dalvík til að telja þátttakendur, því þá mætti gera ráð fyrir að um 40 – 50 þúsund hefðu verið á svæðinu.

Á morgun verður byrjað að sökkva ígildi Hvalfjarðarins undir vatn við Kárahnjúka.  Það er aumkunnarvert að 4 – 5 ríkasta þjóð heims hafi séð sér nauðsynlegt að grípa til svo afdrifaríkrameðala í upphafi 21. aldarinnar til að styðja byggð á Austurlandi.   Verst að íslenskir Austfirðingar hafa ekki ennþá fattað alsæluna sem bíður þeirra, því bæði á síðasta ári og á fyrstu 6 mánuðum þessa árs er halli á búferlaflutningum Austurlands.

Afhverju eru bændur Mývatnssveitar, Laxárdals og Aðaldals ekki réttnefndir hryðjuverkamenn í sögubókum okkar Íslendinga?  Þeir eru þó eina fólkið sem sprengt hafa stíflu hér á landi, sem var "lýðræðislega" ákveðin.  Ég geri ráð fyrir að það fari svolítið eftir því hvaða hug við berum til náttúrunnar, hvaða nöfnum við nefnum sveitunga mína.  Eru þeir hryðjuverkamenn eða eru þeir hetjur?

...eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.


þreyta...

Hlaupin ganga svona og svona, planið er að reyna að fara þetta 4 sinnum í viku fram að áramótum, en skipta þá um gír og byrja að taka á því markvisst með eitthvað skemmtilegt vormaraþon í huga.  Boston er það sterkur kandidat.  Hef nú ekki alveg náð að halda planið undanfarið, en hef ekki stórar áhyggjur af því.  Á sama tíma fyrir ári var maður búinn að vera meiddur í 4 mánuði, svo ástandið á manni núna er bara í himnalagi.

Sé að Björn Bjarna trúir ekki að jafn athugull maður og Steingrímur Hermannsson hafi ekki spurt þegar hann var dómsmálaráðherra 1978, hvort ekki væri örugglega einhver voða leyni eftirlitsstarfsemi í gangi, sem ekki liti neinum sérstökum lögum eða eftirliti að neinu tagi.  Af viðtali sem tekið var við Steingrím í gærkvöldi má ráða að hann hafi ekki verið “mjög athugull maður”.  Vona að Steingrímur fari ekki á límingunum þó hann fái þennan dóm frá BB.  Vona bara að BB hafi náð festa svefn á þessum ógnartímum, því langvinnt svefnleysi er alls ekki gott fyrir heilsuna.  Hann er nú reyndar alltaf hálf þreytulegur að sjá blessaður og kaldastríðið löngu búið.


góðir vinir..

Hélt upp á fertugsafmælið um helgina.  Lagði þetta svipað upp og þegar Landsmótið var haldið á Húsavík 1987, gerði bara ráð fyrir góðu veðri og góðu geymi.  Þegar framkvæmdastjóri Landsmótsins var spurður um veturinn fyrir Landsmót, hvað mundi gerast ef það mundi síðan rigna?  Þá svaraði hann í fullri hreinskilni „Þá fer þetta bara til andskotans!“.  Veðurguðirnir voru á mínu bandi og tókst þetta allt með miklum ágætum og þar sem ég sá lukkunarpamfíll að eiga mikið af skemmtilegum vinum, þá varð þetta bara... magnað, klikkað, frábært.  Ég segi bara til allra, sem hjálpuðu til, sem sáu sért fært að mæta og fyrir fallegar gjafir... „takk kærlega fyrir mig“ ... við gerum þetta aftur eftir 10 – 20 ár.

Byrjaði laugardaginn reyndar á því að hlaupa 23 km með Larsenfélögum.  Ekki mikið sofinn, þar sem vinir að norðan mættu kvöldið áður til skipulagningar og ráðagerða fyrir veisluna.  Einnig þurfti að testa veigarnar í leiðinni... þær fengu vottun undir klukkan 4 um nóttina.  Frábært veður til hlaupa á laugardaginn, kíktum á 6 tíma hlauparana, þeir voru í góðum gír.  Hefði viljað vera með þar.  Til hamingju með sigurinn Börkur.


Bull...

Er í lagi að þingmenn beri tómt kjaftæði fyrir alþjóð í þeirri von að sauðsvartur almúginn viti ekki betur og gleypi því hrátt við því sem menn segja.  Hjálmar Árnason var í “Íslandi í dag“ núna í kvöld, í umræðum um hátt matvöruverð hér á landi.  Ég ætla að staldra við eitt atriði sem lét frá sér fara, vona rétt að öll hin hafi ekki verið af sömu gæðum.  Hjálmar var að reyna að gefa í skyn að þrátt fyrir að engar takmarkanir væru á innflutningi á gosi, þá væri verð ca. 100 erlendis á móti 160 hér á landi!!!

Skýrsla
forsætisráðherra um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndum og ríkjum Evrópusambandsins.  (Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)
Þetta stendur m.a. í skýrslunni:

“..Jafnframt eru lögð vörugjöld á drykkjarvörur hér á landi. Þetta virðist skýra verðmun á gosi, safa og vatni milli landanna.”

Hefur Hjálmar ekki lesið þessa skýrslu eða hefur hann?!?!?  Ég veit ekki hvort er verra.

21 km á laugardaginn ásamt Larsenfélögum og 11 km á mánudaginn.


Jón og séra...

Þar lágu danir í því... þeir kunna fótbolta en ekki við.  Við hljótum að geta boðið uppá eitthvað fleira en böðulskap á vellinum.  Það sannaðist enn einu sinni að það er ekki sama hvort maður heitir Jón eða séra Eiður Guðjonsen, því öðruvísi verður ekki útskýrt afhverju blessaður drengurinn fékk ekki seinna gulaspjaldið í leiknum og í framhaldi af því rautt spjald. 

Stór Grafarvogshringur í dag í þessu fína veðri, smá súld en logn og blíða.  Nú eru að verða 3 vikur liðnar frá RM og loksins upplifði ég mig ferskan á æfingu.  Búinn að vera bíða svolítið lengi eftir því.  Eftir 3 km tiltölulega rólega, ákvað ég að gefa í og sjá hvað maður mundi duga til.  Hélt um 4 mín. pace í um 9 km og gríðarlega sáttur við það.  Æfingin gerði 13,2 km.


Fertugur..

Jæja þá er maður víst kominn á fimmtugsaldurinn, það hljómar nú kanski ekki sérstaklega vel þegar maður upplifir sig “18 til I die“ eins og Bryan Adams sá stórkostlegi tónlistarmaður söng svo skemmtilega um árið.  Hef að vísu þurft að búa við þá staðreynd allt þetta ár að vera flokkaður í hóp 40-50 ára, svo nokkur reynsla er komin á þessa upplifun.  En í alvöru þá er þetta bara fínt, óttalegir krakkar þessir þrjátíu eitthvað.

Fór með félögum mínum í “Larsens venner“ í Hálsasveitina á laugardaginn og átti þar frábæran dag og seinnipart og kvöld og nótt.  Ég var unglingurinn í hópnum, en gat ekki séð hinn stóra mun á mér og hinum félögum mínum sem allir voru komnir vel á fimmtugsaldurinn.  Ég sé núna hversu unggæðingslegur ég var á laugardaginn, en þroskaður einstaklingur í dag.  Maður á fimmtugsaldri hefði aldrei hlaupið klukkan hálftólf að kveldi þriggja kílómetra leið til að baða sig í Reykholtslaug í 2 mínútur. 

Ljómandi hlaup í dag með Fjölnishópnum og takk fyrir söngin og árnaðaróskir með tímamótin. 


Staðir...

Staðir eru fyrir Jón Gnarr eitthvað sem snertir hann ekki baun, það er pointið í pistli hans í Fréttablaðinu í dag.  Ég vorkenni Jóni Gnarr, sem virðist vera ágætlega í tengingu við Guð, en ekki hans stórkostlegu verk sem sjá má í náttúrunni um heim allan eða mannanna verk sem eru auðvitað Guðs líka, því ekkert verður nema fyrir hann (eins og lesa má í bókinni góðu).  Við búum í landi sem er svo óendanlega fagurt, hrikalegt, kalt og heitt að þó maður gerði ekki annað alla sína ævi, held ég að maður kæmist ekki yfir að skoða öll þau undur sem það hefur uppá að bjóða.  Allir Íslendingar eiga sína staði, þar sem þeir eru heillaðir eða uppnumdir, þar sem þeir endurnýjast, fyllast krafti eða fá slökun.  Náttúra Íslands einfaldlega virkar á okkur öll.... nema Jón Gnarr og það er synd fyrir hann.

Ég hljóp á einn svona stað seinnipartinn í dag ásamt félögum mínum Fjölnishópnum.  Veðrið var yndislegt, hlýtt og logn og skýjafar stórbrotið.  Úlfarsfellið lætur kanski ekki mikið yfir sér, en stendur fyrir sínu (295m), viðráðanlegt fyrir næstum alla, með frábæru útsýni yfir borgina við sundin og mögnuð kennileiti við sjóndeildarhringinn.  Ég held að ef Jón Gnarr álpaðist þarna upp í blánka logni og blíðu, mundi hann hreinlega geta tekið í hendina á Guði, því tengslin yrðu svo sterk og þá gæti hann vonandi skrifað nýjan pistil í Fréttablaðið um að staðir skipti hann reyndar í raun... heilmiklu máli.


Kristján hinn kurteisi..

Fallegur dagur í dag í borginni við sundin, sól og hægur vindur, enda sat ég innan við glugga frá klukkan 8 til rúmlega 5 – Týpiskt!  Hvað um það, hlaup með hópnum endurnýjuðu sálartetrið, enda hörkuæfing.  10 mín rólega út, síðan 10 mín tempo, 5 mín rólega, 5 mín tempo, 3 mín rólega og 2 mín tempo, síðan rúllað heim.  11 km lágu í valnum.  Alli bar alla ábyrgð á djöfuls látunum í tempóhlaupunum… hafi hann þökk fyrir.

Kastljósið í kvöld, Valgerður Sverrisdóttir er mætt til Kristjáns.

VS:“ef fram hefðu komið athugsemdir við matskýrsluna sem hefðu verið eitthvað sérlega jákvæðar” K:”það eru ekki athugsemdir”…. VS: “jú það eru hægt að gera athugasemdir á hinn veginn”…. K:”ha jú ok?!?!?!?”    Já þetta eru alvöru stjórnmálamenn sem við Íslendingar eigum.  Um rökhæfileika þeirra verður ekki efast.


Staksteinar..

Ýmislegt hefur í gegnum tíðina komið frá Staksteinum sem reynt hefur á þolrifin, en verið umborið þar sem skilningur hefur verið á að Morgunblaðið er í pólitík ekki síður en fjölmiðlun.  Dómgreindarleysið sem birtist í dag í Staksteinum tekur samt steininn úr og verður bara ekki útskýrt á nokkurn hátt.  Ég á ekki orð til að lýsa furðu minni á að ritstjórn Morgunblaðsins skuli láta þennan texta frá sér sem opinbera skoðun Morgunblaðsins á því hvernig farið var með greinargerð Gríms Björnssonar á sínum tíma.


tæknilegt og flókið blogg...

Hljóp á fimmtudaginn upp í Heiðmörk með hópnum, alltaf frábært að hlaupa þar.  Hljóp 19,3 km á laugardaginn með Larsenfélögum.  Komst ekki á æfungu í dag, en skaust núna áðan, svo ég náði 20 mínútum í Laugum.  Það má eiginlega segja að það hafi verið “rólegt og rómantíkst“ í Laugum í kvöld, því eitthvað voru ljósin að stríða þeim og því slökkt í búningsklefum og hálfslökkt líka inn í sal.  Neyðarljósin lýstu upp salinn, ásamt sjónvörpunum og ljósunum af utan, þetta var voða huggulegt.

Ég veit ekki hvort er óhugnanlegra að Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sér ekkert athugavert við að greinargerð Gríms Björnssonar um Kárahnjúkavirkjun var aldrei kynnt á alþingi eða það að þessi pólitíski skandall mun ekki hafa nein eftirmál fyrir Valgerði eða ríkisstjórnina.  Það er merkilegt með Morgunblaðið að það hefur aldrei skoðun á málum eins og þessum.  Allt óbrjálað fólk hlýtur að sjá að  það er meira en lítið athugavert að greinargerðin kom ekki fram fyrir augu almennings á sínum tíma.  Greinargerðin kom fram í febrúar 2002, mikill hiti var í samfélaginu, eina “faglega“ álitið um berggrunn Kárahnjúkastíflu á þessum tíma var að það hentaði sérlega vel!?!?!?  Káranhnjúkavirkjun var samþykkt á alþingi 8. apríl 2002.  Hvað sagði Grímur: “verkefnið er ílla undirbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku“.  Hvað sagði Skipulagsstofnun þegar hún lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun:  “vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar“.  En Kárahnjúkavirkjun fór í gegnum lýðræðislegt, gegnsætt og lögformlegt ferli..... Flott!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband