Berlínarmaraþon 2007

Undirbúningur fyrir Berlínarmaraþonið var undarlegur svo ekki sé meira sagt.  Síðustu 5 vikurnar innihéldu frá engu hlaupi á viku til 15 km á viku, og undarlegt heilsuleysi sem þó loksins á dögunum rétt fyrir þonið þróaðist til betri vegar.  Ég var því nokkuð ráðvilltur hvað gera skyldi í Berlín, markmiðið hafði alltaf verið að reyna við 3 tíma en núna vissi ég ekkert hvort líkamsástandið stóð til 3:15 eða bara 4 tíma eða jafnvel hvort þetta væri óðs manns æði.  Ákvað að láta sambland af gleði og alvöru ráða för og drakk því bæði orkudrykki og öl í nokkuð jöfnu hlutfalli í lokaundirbúningnum.  Á hlaupadaginn ákvað ég að drekka ekki um of af vökva sem hefur verið galli hjá mér undanfarin ár.  Sídrekkandi orkudrykki fram undir start sem ekki hefur skilað öðru en yfirfyllingu á líkamann og viðeigandi pissiríi í hlaupum.  Tölti í startið rétt fyrir klukkan 9, í hólf D sem ekki var lengra frá starti en 150 metra og jafnvel ekki nema 100 metra frá startinu þegar skotið reið af.  Haile Gebrselassie gerði sé greinilega þetta ljóst að ég var rétt við að anda í hálsmálið hjá honum svo hann hljóp allt hvað af tók og setti heimsmet!!!  Það var svolítið klikkað andartak síðustu sekúndurnar fyrir skot þegar um 40 þúsund gular blöðrur hófu sig til lofts frá öllum hlaupurunum.  

Af stað var farið og nú skyldi kylfa ráða kasti með hraðann, ákvað að vera sem minnst að líta á klukkuna en þess í stað að njóta hlaupsins og láta líkamsástandið ráða för.  Brautin í Berlín er ótrúlega flöt og man ég hreinlega aldrei eftir að brautin væri á fótinn en þess í stað jafnvel oftar heldur niður á við ef eitthvað væri, sem auðvitað gengur ekki upp, þar sem brautin byrjar og endar á næstum sama stað.  Fólk var talsvert á leiðinni, þó ekki hafi það náð að skáka London eða New York.  Annars var það merkilegt að maður upplifði að annar hver Þjóðverji væri Dani sem væri að hvetja, svo ég snúi út úr frægri setningu úr minni heima byggð, þar sem ungur nýliði til sjós kom heim og tilkynnti að annar hver fiskur hefði verið fugl.  Það hefði ekki verið verra að hafa aðeins fleiri Íslendinga meðfram brautinni, þó að þeir sem voru hafi staðið sig með mikilli í prýði í hvatningu sinni.  Kílómetrarnir liðu einn og einn og ástand mitt bara prýðilegt lengstum.   Eftir að hafa fylgt nokkrum félögum mínum úr Grafarvogi fyrstu kílómetrana varð ég einn og sá eftir það aldrei samlanda minn í brautinni.   Rakst á nokkra hlaupara í Glitnisbolum og sendi þeim ávalt kveðju en fékk reyndar alltaf til baka bara undrunarsvip eða í það mesta "hvad for noget?".  Tempóið í hlaupinu hjá mér hélst nokkuð stöðugt í 30 km en þá fór heldur að draga úr mér, þó engin vandamál kæmu upp.  Það var síðan á 35 km að allt í einu allt var búið.. bara allt búið.  100 metrum áður hafði ég hugsað að með þessu áframhaldi væri 3:20 létt í spilunum, en annað kom á daginn.  Allt í einu komst ég bara ekkert áfram og fór líka að fá krampa aftan í lærin.  Á 36. kílómetranum lenti ég tvisvar í því að labba einhverja metra og hafði þónokkrar áhyggjur af framhaldinu.  Rétt eftir 36 km var því betur síðasta vel útbúna birgðastöðin og ákvað ég að gefa mér tíma til að borða 2 banana og drekka nokkur orkuglös.  Þetta virtist skipta sköpum, því afgangurinn varð bara ágætur, þó kannski ekki hraður en ekki fann ég fyrir krömpum eftir þetta.  Það var síðan gríðarlega ljúft að hlaupa gegnum Brandenborgarhliðið og síðustu 200 metrana með áhorfendapalla, músík og stuð í markið.  3:23:38 var niðurstaðan.

Að vanda var safnast saman á fjölskyldusvæðinu í bókstaf I, þar sem Kristján Ágústsson hafði komið sér fyrir með gríðarmikinn íslenskan fána til að ekkert færi milli mála hvar hann væri.  Þangað týndist fólk og samgladdist, talaði um reynslu sýna og sötraði guðaveigar af tilefninu.  Þjóðverjarnir buðu auðvitað upp á frían bjór, en kösin í kringum þá bása var slík að það þurfti talsverða elju og dugnað til að verða sér út um dropann.  Auðvitað náði ég einu glasi.

Eftir stendur minning um flott hlaup í frábærri borg, og ekki má gleyma uppskeruhátíð á mánudagskvöldinu, þar sem sendiherra Íslands bauð upp á fordrykk og hélt tölu.  Frábær ferð í alla staði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband