Færsluflokkur: Bloggar

þessvegna læt ég bolta vera..

Djöfull er þetta týpiskt, maður heldur sig frá bolta vegna þess að maður var alltaf eitthvað skakkur eftir hann, síðan lætur maður til leiðast að redda mönnum út því að það vantar einn og hvað... jú maður tognar!  Ég lét sem sagt undan þungri pressu í vinnunni í morgun að koma í bolta, því það vanti einn.  Ég þráfaldlega neitaði, enda taldi ég mig ekkert vera í standi til þess að spila fótbolta, en þar sem maður veit að það er auðvitað hundleiðinlegt þegar það mæta 7, þá sló ég til -  tæki það bara rólega.  Í 53 mínútur var tóm gleði, en þá kom þetta fína skotfæri og ég lét vaða og ... í fyrstalagi skoraði ekki, en í öðrulagi tognaði framan í lærinu.  Ekki kanski versta tognun sem ég lent í, en gæti þýtt einhver rólegheit sem ég hef fengið miklu meira en nóg af undanfarnar vikur.  Djöfulsins!


Drami..

Drami í dag í hlaupunum þegar Alli fótbrotnaði rétt eftir að lagt var af stað.  Væntanlega mjóa beinið við hliðina á leggnum sem gaf sig.  Þetta gerðist rétt eftir að lagt var af stað á rólegri ferð og sléttu malbiki, svo ýmislegt getur gerst á hlaupum, þó ekki sé hasarinn.  Þetta er auðvitað ferlega leiðinlegt fyrir Alla (og okkur félaga hans sem missum góðan hlaupafélaga), enda ljóst að pása er framundan hjá honum næstu vikunar, jafnvel allt að áramótum.  Sjálfur var ég mjög sáttur við æfinguna , því kálfinn virðist vera nær albata og því ekkert til fyrirstöðu að taka aftur á því á komandi vikum.

Hef verið að velta því fyrir mér hvort ákvörðunin um hvalveiðar verði í framtíðinni talin jafn galin og ákvörðun Dabba og Dóra að skrifa upp á innrás í Írak.  Við erum litlu betri en Norður Kórea, allt alþjóðasamfélagið er á móti okkur og biður okkur að endurskoða framferði okkar, en ekki frekar en Norður Kórea þá gerum við ekkert með það.  Stöndum eins og þrjóskur og þrár unglingur með nýfengið sjálfræði sem fer sínu fram, þrátt fyrir vinsamlegar ráðleggingar allra í kringum hann, enda eru allir í kringum hann hálfvitar en hann veit best.


Blíða..

Jæja þá er þetta allt í framför með kálfann, tók 25 km hlaup í gær með Alla og Kalla Hirst.  Glæsilegt veður, heiðskýrt, logn og plús 3 – 5 gráður.  Ákváðum að smella okkur inn á maraþonleiðina, svo við gætum hvatt hlauparana sem þreyttu haustmaraþonið.  Einnig bauð þetta uppá að stela sér smá lögg á drykkjarstöðvunum og bulla í starfsfólki hlaupsins.  Sumir voru að vísu með blammeringar á mig, hvern fjáran ég væri að gera þarna létt joggandi en ekki annaðhvort að taka þátt eða starfa við hlaupið.  Afhverju ég tók ekki þátt, segir sig nokkuð sjálft, en hitt er að vísu rétt að ég var kosinn í stjórn Maraþonfélagsins á fimmtudagskvöldið síðasta og því stóð það mér svolítið nærri að vera starfsmaður hlaupsins.  Vona að mér verði fyrirgefin þessi upphafssynd á ferli mínum í stjórn félagsins... verð þó að geta þess að enginn af nýjum stjórnarmeðlimum stóðu sig í stykkinu, en koma væntanlega eins og mér stendur hugur til – sterk inn á næstu misserum.  Við félagarnir fórum óvenju rólega yfir og hentaði það mér prýðilega.  Kálfinn var með einhver skilaboð eftir 10 km og stóð það í 5 km, en fjaraði svo út og fann ég ekkert fyrir kálfanum eftir það.  Afraskurinn í dag er að kálfinn er stífari en fjandinn, en korters frysting í kvöld með eftirfylgandi hitameðferð og puttum gera vonandi góða hluti.


engir kommúnistar lengur..

Hérna eru svona smá hugleiðingar vegna ákvörðunar um hvalveiðar okkar Íslendinga.  Það ber eiginlega að taka það fram strax að flest það sem sagt er um fjölda hvala eða áhrif þeirra á umhverfið byggir á vísindum sem fara ber með í samræmi við eðli þeirra og hættulegt að lýta á sem hinn endanlega sannleik.  Til dæmis eru öryggismörk mjög víð þegar lagt er mat á stofnstærð hvala og það gefur t.d. að þegar menn segja að fjöldi Hrefna sé ca 40 þús. dýr, þá má segja með 95% vissu að stofnstærðin sé á bilinu 5 – 80 þúsund dýr.  En látum vísindin njóta vafans í framhaldinu.

Hvalirnir eru að éta okkur út á gaddinn.  Talið er að afrán hvala sé 6 milljónir tonna (mt) af sjávarfangi og þar af 2-3 mt af fiski.  Við veiðum 1,5 mt, en nytjastofnanir sjálfir éti tífalt meira en hvalirnir eða um 20 – 30 mt.  Verðum að veiða meiri fisk því hann er að éta allan fiskinn.
Talið er að framleiðni svifs og krabbadýra kringum landið sé um 100 mt, þar af éta hvalir um 2-3 mt en fiskistofnarnir 10 – 15 mt.

Hef heyrt bæði sjávarútvegsráðherra og fulltrúa LÍÚ tala um að halda þurfi hvala stofnunum í kringum 70% stofnstærð miðað við núverandi stofnstærð.  Það er fækkun um einar 12 – 15 þúsund hrefnur og væntanlega svipað af Langreyð miðað við stofnstærð hennar.  Ennfremur má lesa á vef sjávarútvegsráðuneytisins að veiða megi allt 400 dýr á ári af hvorri tegund út frá sjálfbærnistefnu í veiðiálagi.  Ætla menn að fara veiða hér um 2000 til 3000 hvali á ári hér næstu árin?

Og nú ætla menn í rökræðu stríð við þessa “hálv..” sem leggjast gegn hvalveiðunum, það er ekki ósvipað og senda trúuðu fólki email um að trúin þeirra sé öll á misskilningi byggð.  “Sko það var enginn Adam... og svo framvegis”.  Jæja gangi þeim vel samt.

Ég upplifi þessa ákvörðun svolítið af sama toga og Héðinsfjarðargöngin, það skiptir engu hvað menn segja í rökræðunni, hlutirnir eru bara ákveðnir, þó heildarhagsmunirnir séu afar vafasamir.  Mér dettur í hug af þessu tilefni, konan sem tók leigubíl í Bulgaríu rétt eftir fall múrsins og þegar hún ætlaði að fara spenna á sig beltið, sagði leigubílstjórinn “no, no, no... no belts.. we are no communists any more”.

ps. meiðslin ganga hægt, en tekst vonandi skrölta rólega í kvöld og síðan bind ég vonir við að verða orðinn mikið betri um helgi, svo hægt verði taka túr á maraþonleiðnni og hvetja liðið í haustmaraþoninu.


138 maraþon eftir áttrætt..

Hitti sjúkraþjálfarann í morgun og gekk inn til hans óhaltur og fínn, en það var ekki sömu að segja hálftíma síðar.  Djöfull meiddi hann mig drengurinn, en væntanlega nauðsynlegt að rífa þetta svolítið upp til að fá almennilegan bata í blessaðan kálfann.  Þannig að ég tók það rólega í kvöld á bretti í hálftíma til að hreyfa mig þó eitthvað. 

Las ansi skondna grein á netinu í dag og hef sett hana hér inn hafi einhver áhuga á að lesa hana (til vinstri undir „SÍÐUR“).  Greinin fjallar um hvað fær fólk til að hlaupa maraþon aftur og aftur og jafnvel í hundraða tali.  Don McNelly er nefndur til sögunnar en hann er 85 ára og hefur lokið 707 maraþonum og þar af 138 síðan hann varð áttræður.   Saga Bob Sarocka er rakin, en hún er sennilega nokkuð keimlík mörgum raunveruleikasögunum héðan frá Íslandi, hvernig fólk hefur byrjað hlaupin og endað í maraþonum.  Saga hans er þó merkileg að því leiti, að þegar hann hljóp LaSalle Bank Chicago maraþonið 1996, þá hljóp hann um 35 km öklabrotinn og ávann sér tilnefningu til „Hlaupafífl hlaupsins“.  Ágætt að hafa hann í huga þegar harðnar á dalnum í verkefnum framtíðarinnar.


allt í leyni..

Það er búið að vera frekar rólegt frá því á mánudaginn.  Fékk tíma hjá sjúkraþjálfara strax á miðvikudaginn, en sá þurfti síðan endilega að verða lasinn þann daginn, hitti hann á morgun.  Hef í millitíðinni verið í sjálfsmeðhöndlun og bara orðinn nokkuð góður í kálfanum.  Joggaði rólega ca 3 km á fimmtudaginn á innibrautinni, fann svolítið fyrir því, en var betri á föstudaginn þegar ég tók 2 km á bretti.  Fór síðan 18 km í gær með Erlu, Stefáni og Veroniku og var bara góður í kálfanum, þetta hefði þó ekki mátt vera mörgum metrum lengra.  Fórum seinnipartinn sem þýddi að við fengum flott hlaupaveður, smá súld en lítinn vind sem var svolítið annað en morgunhlaupararnir fengu að upplifa. 

Jæja þá erum við búin fá nýtt þrætumál sem ekki verður útkljáð með þeim hætti að við getum hætt að ræða það.  Þannig er með öll okkar stærri mál, þau fá aldrei neinn endi og því þrösum við um það sama til eilífðarnóns.  Ég er að sjálfssögðu að tala um íslensku „leyniþjónustuna“ sem virðist hafa verið starfandi (og er kanski enn), í engu umboði og ekki í vitneskju neinna (nema kanski Björns Bjarna).  Það er merkilegt hvað Sjálfstæðisflokkurinn sem í orði kveðnu er svo mikið fyrir frelsi einstaklingsins, er í raun lítið fyrir opið og gegnsætt samfélag.  Flokkurinn þvælist fyrir því að sett séu lög um fjárreiður stjórnmálaflokka, flokkurinn var sá síðasti til að hætta eftirliti með því hverjir mættu á kjörstað og þurfti næstum að draga fulltrúa þeirra út úr kjörklefunum með töngum og nú þvælist hann fyrir því að hægt sé að svara mörgum áleitnum spurningum varðandi hleranir sem upplýst er að áttu sér stað hér á landi.


tognun..

Jæja þá kom að því... tognun, en vonandi bara smá brestir í mínum vinstri kálfa.  Stífir kálfar eru nokkuð normalt ástand hjá mér og má segja að það sé stanslaus vinna hjá mér að halda þeim í lagi.  Reyni að gera það með því að teygja þá mikið og gera kálfaæfingar með eigin líkamsþyngd og ekki síst með nuddi, sem einfaldlega hefur ekki gerst nokkuð lengi núna.  Það er kaldhæðnislegt en í gærkvöldi sendi ég sms í nuddarann minn sem hefur verið frá vegna axlarmeiðsla, vegna þess að ég var farinn að hafa nokkrar áhyggjur af þróun mála með kálfana.  En æfingin var fín... fyrstu 7 kílómetrana, flott veður og ég feikna stuði og lang fyrstur (enginn Alli og Golli ekki svipur hjá sjón Brosandi).... en eins og segir „hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu verða fyrstir“ nema það hafi verið „hinir síðustu verða fyrstir og hinir fyrstu verða síðastir“ -  það kom á daginn (allavega að ég varð síðastur) og ég sönglaði síðustu 3 km „ég held ég gangi heim, held ég gangi heim“.


aðhald..

Laugardagur ávalt til lukku... smá áhyggjur af austan strekkingi í morgun þegar lagt var að stað í laugardagstúrinn með Larsen félögum, en vindinn lægði á leiðinni svo heimferðin var líka ljúf.  Fórum norðurströnd Reykjavíkur út að Eyðistorgi, Ægissíðuna og Fossvoginn heim.  Stefán Viðar var gríðarlega prúður þegar hann stoppaði á ruslabílnum við Eyðistorgið svo við kæmumst yfir götu, síðan upplifðum við fyrsta fólk í mark í „Geðhlaupinu“.  Félagar Kristján og Guðmundur Magni stóðu þar sína plikt að vanda.  Túrinn gerði 26,5 km sem var fínt og þýðir að ég skreið í 67 km í vikunni.  Mjög sáttur við það.

Pólitík:  Sé að ríkisstjórnin er með annari hendi er að stoppa þensluna en hinni að gefa lausan tauminn.  Hvar er betra að gefa lausan tauminn en í vegagerð (sem ég krítisera í princippinu ekki) en ákváðu að á sama tíma að draga úr fjárframlögum til til ungmennahreyfinga eins og Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK og Bandalags íslenskra skáta. Allar gegna þær mjög virku og uppbyggilegu æskulýsstarfi fyrir fjölda barna og unglinga sem að langmestu leyti byggist upp á sjálfboðavinnu. 29 milljónir þar í sparnað! Athugasemdin sem fylgdi lækkuninni er “vegna aðhalds í ríkisrekstri”.  Frábært!

Laugardagsskokk


eintóm blíða..

Fín vika á hlaupum.  Mánudagur með í blíðu með Fjölnishópnum – 10 km, þriðjudagur 10 km á bretti í Laugum, Fjölnishópurinn aftur í blíðu á miðvikudaginn og nú 11 km, í kvöld fyrsta inniæfingin í Frjálsíþróttinahöllinni, bara toppurinn að taka spretti þar inni, æfingin gerði væntanlega með öllu hjá mér um 10 km aftur.  Þannig nú eru komnir rúmir 40 km og laugardagurinn eftir með vonandi í kringum 25 km, þá væri þetta það lang lengsta sem ég hlaupið á einni viku síðan í apríl.... og þó ætli vikan með blessuðum Laugaveginum hafi ekki gert 60 – 70 km.  Fínt þegar maður nær svona heilum vikum án þess að æfingar séu að detta út.  Vonandi nær maður að halda einhverjum dampi í þessu næstu vikurnar og fá smá spark í formið.

Póltík... nei engin pólitík dag... alltof fallegt veður til þess.


áfallahjálp..

Síðasta ferðin í sumar á Úlfarsfellið var tekin á fimmtudaginn með Fjölnishópnum.  Færum okkur inn í nýju Frjálsíþróttahöllina frá með næsta fimmtudegi.  Veðrið var ljúft eins og það hefur almennt verið í september og ekki var það síðra á laugardaginn þegar ég tók 23 km með Larsenfélögum. 

Ég las Staksteina í morgun og verð að segja að þar hlýtur sár og bitur maður að halda á penna og spurning hvort það hugarfar sem þar endurspeglast eigi nokkuð erindi við nútímann.  Í stuttu máli eru Staksteinar að gera upp við Samtök herstöðvarandstæðinga og einfaldlega afgreiðir þá sem gengu Keflavíkurgöngurnar sem þeir hafi gengið í þágu Stalíns, þágu þeirra sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun, þágu þeirra sem myrtu verkamenn á götum Berlín, þágu þeirra sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar.... og að þeir hafi viljað breyta þjóðfélaginu í svona samfélag!!!  Er þetta boðlegt?  Staksteinar klikkja út að minning um Samtök herstöðvarandstæðinga verði ekki í heiðri höfð.  Jæja það var og... það var greinilega óhugsandi að fólk einfaldlega vildi búa í herlausu landi... nei það vildi fá Stalín.  Spurning hvort sumir þurfi á áfallahjálp að halda þar sem enginn er herinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband