Laugavegurinn 2006

Það má diskúterast hvern fjandann ég var að gera klukkan 9 í startinu á Laugavegshlaupinu 2006, en þar var ég og nóg um það í bili.  Nokkrar áhyggjur hafði fólk af veðri, þar sem spáð var suðvestan rigningu og roki, en þar sem maður stóð og beið var logn og blíða.   Merkið gall og af stað var haldið og að sjálfssögðu var ég alltof aftarlega, svo ekkert gekk að komast komast áfram.   Enda voru þeir félagar Börkur og Ævar horfnir þegar maður komst upp á sléttuna fyrir ofan Landmannalaugar.  Þegar ég kom loks auga á þá höfðu þeir væntanlega haft um hálfan kílómetra á mig, með að vera framarlega í startinu.

Rigning... fyrsta rigningardroparnir fóru að koma um leið og hækkunin byrjaði fyrir alvöru. Um miðbik leiðarinnar upp í Hrafntinnusker, var komin helli rigning og talsverður vindur með.  Ekki löngu síðar fór manni að vera ansi kalt á handleggjunum (ég var í stuttermabol og þunnum vindjakka),  við rigninguna bættist stöku haglél sem alls ekki voru pöntuð þarna.  Við vorum ennþá “í skjóli”, norðan við fjöll og manni varð hugsað til hvers biði manns hinummeginn.  Á 8. kílómetra sökk maður uppá kálfa í krapavatn, það var sérlega þæglilegt, nú var manni ekki bara kalt á puttunum og framhandleggjunum, heldur líka löppunum.  Nú var ég búinn að ná Berki og Ævari og reyndum við að vera voða skipulagðir að skiptast á með að kljúfa vindinn.  Í Hrafntinnuskeri vorum við á 1:10, kvart banani, orkudrykkur, piss og af stað aftur. 

Veðrið var núna stundum rigning en alltaf hvasst.  Manni var aðeins hlýra og léttari á fæti fyrstu kílómetrana frá Hrafntinnuskeri.  Það var síðan ca í nánd við Háskerðing sem blikur fóru að koma á minn mann.  Ég var hreinlega drulluþreyttur og þungur.. og bara 40 km eftir.  Hvaða asnaskapur var þetta eiginlega, þú þarna, veistu ekki að þú ert ekki búinn að hlaupa baun í bala í næstum 3 mánuði, já já.. ok þú hljópst vel í vetur, en á það þá bara duga  fyrir allt árið? ha?  Þetta voru hugsanirnar á þessum kílómetrum og voru bara jákvæðar í minn garð, miðað við hvað hugarangur mitt átti eftir að skapa af sér á síðari stigum hlaupsins.  Nú var haglél farið að vera fastur kostur í rigningunni og vindurinn góðir 20 m/sek.  Jökultungan var sérlega slæm hvað þetta snerti og fannst mér á stundum að það rigndi upp í augun á mér.  Eftir að niður tungurnar var komið var allt annað veður komið, jú jú væntanlega 15 m/sek en þurrt og bara hlýtt.  Í Álftavatn kom ég á 2:20-25, ég klikkaði aðeins á lappinu.  Þarna var ég kominn aðeins framúr félögunum.  Áfylling, orka, kvart banani og af stað.

Nú fór í hönd lang ljúfasti hluti hlaupsins, þurrt og vindur lítill, sem náði allaleið að Bláfjallakvísl.  Það meira segja glytti í sól fyrir ofan skýin, nei nei, það skein aldrei sól, en eitt augnablik voru þau bara ekki það þykk að maður sá að það var sól á bakvið.  Enda svifti ég mig vindjakkanum og batt hann um síðasta spottann að Bláfjallakvíslinni.  Þó veðurástandið væri vissulega mikið betra var ég orðinn ferlega þungur og orkulaus, einmitt þarna þar sem leiðin fer að verða sem auðveldust.  Við Bláfjallakvísl skipti ég um sokka og skó og eitt augnablik velti ég því fyrir mér, hvort ég ætti nokkuð að taka vindjakka með mér áfram.  Það var blíða þar sem ég sat.  Jú ég tek hann og drattaðist af stað.  Það liðu 2 km og þá skall það á sem átti eftir að einkenna það sem eftir var dagsins.  Brjálað rok og rigning.  Áður en lagt var á sandana stóðu 2 starfsmenn hlaupsins við Landrover (ég man ekkert hvernig bíll þetta var) og buðu upp á vatn með sandi og þáði ég það til að skola niður einu orkugeli síðan var lagtí’ann út á svartan sandinn.  Næstu 6 – 7 km var lappað, stoppað og stundum hlaupið þegar tækifæri gafst til.  Veðrið var ógeð, grenjandi rigning inn á milli, vindhviður sem stoppuðu mann alveg og sandfok til að gera þetta fullkomið.  Hvern fjárann var maður að gera, bensínlaus líkamlega og frosinn á puttunum (hvítir nylon fingravetlingar hita jafnmikið og meðalfrystihólf).  En hvað það var ekkert annað gera en drattast þetta áfram niður í Emstrur.  Félagarnir voru löngu horfnir og breska konan sem vann, farin framúr mér.  Í Emstrur kom ég á 4:15.  Djöfull var niðurbrytjaða Snickersið gott með kókinu .. úhaaa.  Nú lá ekkert á, þetta var hætt að snúast um tíma heldur að klára og ég gaf mér góðan tíma í að háma í mig Snickers með kóki.  Mér flaug í hug þar sem ég stóð þarna eiginlega algjörlega búinn á því og fann hvernig líkaminn öskraði á meira snickers og kók og hvað þetta var gott, að svona hlýtur fixið að upplifast hjá eiturlyfjasjúklingunum.... þeir fara að vísu ekki á eftir fixið og hlaupa út í regnið í líkama sem segir bara “þetta er orðið ágætt”. 

Enn var arkað af stað í sama rokinu og rigningunni sem fyrr.  Fyrstu 3 km eftir Emstrur voru mínir lélegustu á leiðinni.  Mikið um labb og lítið um hlaup.  Það var nú eiginlega merkilegt að fæturnir sem slíkir voru bara bærilegir, engir krampar gerðu vart við sig, en ég var bara besínlaus og andlaus.  Þegar síðan 3 - 4 hlauparar í hóp komu og fóru framhjá, hugsaði ég hverskonar ævintýralegur aumingjaskapur er þetta, og hóf mig upp á eitthvað sem við getum kallað jogg/hlaup sem ég hélt allaleið inn að Kápu.  Þar var aftur kók og snickers mmmmmm.  Mér varð litið til Kápunnar meðan ég staldraði við og sá hvernig rigningar skaflanir svifu um loftið.  Í vændum var versta veður dagsins.  Fljótlega eftir að komið var upp í Kápuna,  upphófst einfaldega ofsaveður, það var brjálað rok og öskrandi rigning, það var ekki mikið um hlaup þarna.  Hinummeginn beið Þröngá en enginn Kristján Ágústsson ber að ofan.  Að vaða yfir Þröngá úr þessu var bara eins og um ilvolgt vatn væri að ræða.  Verra var að reyna reima skóna þegar ég losaði steina úr þeim stuttu síðar og puttarnir frosnir.  4 kílómetrar eftir í skógi, nú fór mér að líða vel andlega, þetta var að hafast.  Rétt þegar skóginum líkur og markið blasir við kemur útlendingur upp að mér og við hlaupum samhliða í átt að síðustu beygju inn á túnið með endamarkinu.  Fjandinn hafi það, þessi fer nú ekki líka að verða á undan mér, hugsa ég og rykki af stað og hann líka.  100 metra sprettur og ég hef hann með sjónarmun.  Tíminn 6:29:46, sem ég verð nú bara að vera mjög sáttur við eftir allt saman.
Ég held ég eigi eftir að taka með mér mikla reynslu út úr þessu hlaupi, bæði hvað betur má gera (klæðnaður og æfinga undirbúningur) og það að klára dæmið, þó líðanin væri á stundum slæm.  Ég mæti að ári.

Hvað gerði ég rangt:  Nylon vetlingar, of aftarlega í startinu, engin þjálfun að viti
Hvað gerði ég rétt: kláraði hlaupið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband