Færsluflokkur: Bloggar

rugl..

Ég fór á tónleika Kaupþings á Laugardalsvelli á föstudagskvöldið var og hafði af því ágæta skemmtun og fannst vel af þeim staðið, þó Stuðmönnum tækist að vísu næstum að eyðileggja kvöldið, en það er önnur saga.  Hinsvegar fannst mér næstum vandræðalegt að þurfa að hlusta á tölur um fjölda gesta í tíma og ótíma, sérstaklega að þær voru algjörlega út úr kú.  Þarna var fullyrt að gestir væru orðnir yfir 40 þúsund - þvílíkt rugl.  Ég hef verið á Parken þegar hann er fylltur og tekur hann þá 46 þúsund manns.  Hvernig skildi þá vera umhorfs á Parken?  2 stúkur á langhliðum og á tveimur hæðum og síðan stúka við endann líka á tveimur hæðum og loks gólfið á vellinum - allt fullt.  Þessi þjóðarleikvangur dana inniheldur þá 46 þúsund.  Laugardalsvöllurinn hafði eina langhlið fulla á einni hæð og síðan helming af gólffleti vallarins og þar komum við Íslendingar allt í einu yfir 40 þúsund manns.  Ef ég man rétt er ég ekki alin upp í Puttalandi.

Ferskur..

Har Har - RM 2007

Munið að versla myndir af Torfa á www.hlaup.is


RM 2007

Frábæru Reykjavíkurmaraþoni lokið og tími minn PB 1:27:42 sem er bæting um 3 sekúndur.  Ég er nú eiginlega alveg undrandi á þessu, þar sem ég hélt að þetta væri ekki staðar, en svona geta hlaupin verið undarleg.  Ég hafði að vísu fengið óumbeðna hvíld í 2 daga vegna kálfavandræða svo ég var bara geysilega frískur í startinu.  Síðan eftir að hlaupið hófst var ég yfirleitt að rúlla þetta 4:10 - 4:15 í pace og hafði það bara svona fjári gott.  Veðrið var auðvitað tóm snilld og fegurð náttúrunnar ótrúleg og öll umgjörð hlaupsins þannig að ekki var hægt annað en að „fíla" sig í botn á leiðinni.   Ég bjóst alltaf við að þetta yrði svolítið erfitt seinnipartinn, en það bara gerðist ekkert og því hljóp ég síðustu 3 - 4 km heim á pace 4 og þar undir, sem var ákaflega ljúft.  Núna er bara að æfa eins og maður næstu vikurnar og þá er aldrei að vita hvað gerst getur í Berlín.


áheit..

Ég ætla að hlaupa hálf-maraþon (21km) í Reykjavíkurmaraþoninu 18. Ágúst.  Hægt er að heita á mig í hlaupinu og miðast áheitið við fasta upphæð.  Málefnið sem ég hef valið er Barnaspítali Hringsins, án nokkurs vafa einn allra besti barnaspítali í heiminum.  Ég og spítalinn eigum dulitla sögu saman og þætti mér því vænt um ef þú mundir heita á mig í hlaupinu og með því styrkja gott málefni og hvetja mig til dáða í leiðinni.

Hér er linkur til að hefja áheit á mig.  Greiða þarf með VISA.

https://www.marathon.is/pages/aheit/?prm_participant_id=16845&prm_action=2&iw_language=is_IS

í góðum málum.

Í heilu maraþon 2006 í Reykjavík


enn hlaupandi..

Ég veit, þetta er engin frammistaða í blogginu... maður er bara ekki að nenna þessu.. þó ágætt sé stundum.

Jæja en ýmislegt hefur á daga mína drifið frá síðustu færslu.  Ég fór ekki Jökulsárhlaup, en þess í stað „Hlaupið í skarðið" á Siglufirði um verslunarmannahelgina.  Það var talsverð raun, því veður minnti um margt á Laugavegshlaupið í fyrra, sem sagt rok og rigning og hiti 4 gráður.  Hlaupaleiðin er auðvitað urð og grjót upp í mót eina 6 km og svo beint niður hinummeginn í 4 km.  Hækkun er einhverjir 400 metrar  svo þetta var helv.. puð fyrir þreytta fætur.  Ég man ekki einu sinni tíma minn og ekki finn ég hann á vefnum, svo hans verður í engu getið hér.  Ég fékk þennan fína pening (eins og allir fá) að hlaupi loknu, en ekkert er skráð á hann... ég tússa bara eitthvað fallegt á bakhliðina.  Ég lofaði að mæta að ári ef Sigurður stormur mundi spá sólskini á Siglufirði, því ekkert sá ég á leiðinni nema þoku, vætu og hamra við hliðina á mér, þannig að ég ekkert veit hvernig umhorfs er þarna á þessari fornu Siglufjarðarleið.. annað en hún er brött.

Eftir verslunarmannahelgina náði ég síðan í tognun í kálfa, sem stoppaði mig talsvert í síðustu viku, en fór þó 25 km á laugardaginn, þannig að ég er að koma til.  Ætla að hlaupa 60 km í þessari viku fyrir Reykjavíkurmaraþon, því ég tími einfaldlega ekki að fórna þessari viku í sluggs til að vera einhverjum mínútum betri í RM þar sem ég ætla að hlaupa hálft.  Frekar að ég hvíli kannski pínu fyrir Brúarhlaupið.


léttur..

Hreina loftið og flugurnar í Mývatnssveit gera útslagið... ég er að hverfa eða þannig.  Snaraði mér á vigtina í Laugum á mánudaginn og það var sannarlega allt annar bragur á tölunum í þetta skiptið.  81,7 kg stóð þar og kætti það mjög geð guma.  Núna er bara spurningin hvort fætur vorir eru klárir í Jökulsárhlaup.  Skal alveg viðurkenna að álag síðustu vikna er aðeins að segja til sín og því kannski mesta skynsemin í því að taka því rólega um helgina, þe. fara ekki í keppnishlaup, en þar sem ég er ekki frægur fyrir mikla skynsemi eru allt eins líkur á því að ég skelli mér.  Stefnir í að það verði í fyrsta sinn ekki sunnan átt og sól, en í stað þess norðan átt og jafnvel blautt.  Jökulsárleiðin er nú kannski ekki sú besta sem fyrir finnst í bleytu, en alvöru hlauparar láta slíkt ekki aftra sér. 


hlaupin og lífríkið...

Héðan úr sveitinni eru bara góðar fréttir, veður með eindæmum, heiðskýrt í 8 og hálfan dag af 10, enda tók ég pásu frá sólinni og gerðist erindreki á Húsavík sem að vísu tók á móti mér með sól, en verkefni dagsins útilokuðu að hennar yrði með nokkru notið.  Hlaup ganga svona bara nokkuð vel, síðasta vika enda í rúmum 60 km, og vóg 33 km túr á laugardeginum þar ansi þungt.  Er kominn í rétt um 45 km í þessari viku og gæti hún endað í kringum 80 km ef plön halda. 

Fréttaflutningur Moggans, sem aldrei lýgur eins og alkunna er, var ótrúlegur á síðasta sunnudag.   Þar var því slegið upp að uppgangur lífríkis Mývatns væri með ólíkindum og það væri að sjálfsögðu því að þakka að Kísiliðjan hætti starfsemi fyrir 3 - 4 árum síðan.  Að lífiðríkið er í miklum blóma má sannarlega til sansvegar færa, en að það megi rekja til lokunnar Kísiliðjunnar er argasta bull svo það sé sagt hreint út.  Fréttamennska eins og birtist á síðum blaðsins téðan sunnudag var klassísk dæmi um kranablaðamennsku eins Jónas Kristjánsson hefur gagnrýnt svo mjög að viðgangist á Íslandi.  Um þetta gæti ég ritað langt mál en nenni ekki í augnablikinu en langar að nefna tvö atriði.  Því var haldið fram, um margra ára skeið, af Árnum þeim sem talað var við í fréttinni að það tæki nokkur hundruð ár fyrir lífríkið að rétta sinn kúrs eftir inngrip kísilnámsins.  Viðgangur flugu og fugls hefur sjaldan verið betri en í ár aðeins fáum árum eftir stöðvun vinnslunnar.   Var vatnið þá ekkert svona skemmt eins og endalaust var haldið fram?  Veiði í vatninu er á uppleið, en hvar skildi sú veiði vera?  Jú hún er á unnum svæðum vatnsins, því þar er dýpi og gróska í lífríkinu fyrir silunginn.  Það er einfaldlega staðreynd að djúpum svæðum vatnsins hefur fækkað mikið og eru sum hver orðin svo slæm að þar þrífst ekki neitt líf.   Bleikjan þrífst best við 8 gráður en á sumrum er vatnið farið að ná 16 gráðum við útfall og staðbundið nokkuð hærra.  Það má jafnvel undrast að nokkur bleikja þrífist í vatninu eins og komið er.  Þar koma skurðirnir bleikjunni þó að nokkurri hjálp, því þar finnur hún ennþá viðunandi kulda í vatninu.  En nei, þetta er allt kísilnáminu að kenna, eins og Árnarnir geta samviskulega.  Þrátt  fyrir að námuvinnsla hafi verið í vatninu í næstum 40 ár er einungis búið að vinna svæði sem nemur 15 - 20% flatarmáli vatnsins og það einungis á svæði sem kallast Ytri-flói.  Engan þekki ég bónda sem býr við Ytri-flóa sem mótfallinn hefur verið námuvinnslu úr vatninu... ættu þeir ekki að hafa verið þeir sem mest voru andsnúnir vinnslunni?


búðir..

Það var þetta með æfingabúðirnar... ég meinti eiginlega búðirnar.. búinn að kíkja í Strax, Úrval, Sportvörubúð og nokkrar bensínstöðvar.  Fínar búðir allt saman.  Hlaupalega séð gengur þetta samt bara fínt, tók 18 km í fyrradag og 12 og hálfan í gær með inniföldu meðalfjalli, verð bara halda þessum dampi á næstu dögum. 

Mývatnssveitin klikkar ekki frekar en fyrri daginn og ekki sést ennþá ský þessa 3 daga sem ég hef dvalið hér, síðan horfir maður til norðurs í átt til sjávar og sér hvernig þokan stríðir lágbyggðunum.    Veðurspáin er að vísu ekkert spes með norðan átt næstu dægrin, en sjáum til hvernig sveitin höndlar hana.

Varðandi veðurspána má að vísu segja að hún sé næsta fullkomin hvað varðar Laugavegshlaupið um helgina og synd og skömm að verða fjarri góðu gamni þar.  Það gerist ekki á næsta ári.  Einn öl kassi farinn þar í hundskjaft, að vísu verðugan kjaft, svo eftir honum verður ekki séð.  Ég óska Laugavegshlaupurum góðs gengis og segi bara sjáumst að ári.

Hlaupið gegnum vökvarann


æfingabúðir..

Sjötíu km í síðustu viku og svipað í þessari, nú er allt að gerast.... nema að ég léttist helv.. hægt.  Hef því ákveðið að fara í æfingabúðir í Mývatnssveit og athuga hvort þingeyska loftið mun ekki létta mig á 2 vikum eða svo. 

Ótrúlegt veðurlag hefur ríkt í höfuðborginni að undanförnu og veltir maður því á stundum fyrir sér hvort Global warming sé að alvöru farið að kikka inn, þá segi ég bara „fleiri olíuhreinsistöðvar og annað gott".   Annars er þetta týpískt að þegar svo blíðviðri skellur á þarf maður að vinna sem aldrei fyrr og því hefur þetta mest upplifast sem bölvun þar hitinn á skrifstofunni minni hefur lítið farið niður fyrir 35 gráður síðustu daga.  Ég geng þó ekki eins langt og framkvæmdastjóri Völsungs gerði um árið, þegar hitinn var að sliga hann í vinnunni.  Þannig vildi til að við félagarnir þurftum eitthvað að eiga erindi við hann og mættum á skrifstofu Völsungs, þar sat þá miðaldra maður við skrifborð sitt, búinn að hneppa frá sér skyrtunni og með buxurnar á hælunum.  Við ákváðum bara að koma síðar.


Lífið er ljúft..

Hlaup ganga bara fínt þessa dagana og það stefnir í ansi góða viku hjá mér núna með um 70 km.  Svolítill daga munur á mér hvernig lærið er að höndla aukið álag, en lykillinn virðist vera að teygja út í eitt og taka á því eins og maður getur, þ.e.a.s í teygjunum.  Hef ekki mikið spáð í það fyrr en nú, en að ætla að teygja á aftanverðum lærisvöðvum þá krefst það krafta eða hreinlega aðstoðar, ef vel á að vera... allvega fyrir svona spítukall eins mig.Mörg skemmtileg hlaup um helgina og þá sérstaklega Þorvaldsdalsskokkið, en því miður engar forsendur til að taka þátt, svo Larsenfélagar verða á dagskránni og það gæti alveg verið verra.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband