rjátl..

Þetta er helst í fréttum.  Hlaup hafa aukist núna hægt og rólega síðustu vikur, tók 30 km fyrir 2 vikum, 43 km í síðustu viku og stefndi á 50 km í þessari en næ væntanlega ekki nema 45 km.  Fór á Esjuna á þriðjudaginn og hljóp nokkurn hluta hennar og afleiðingarnar láta ekki að sér hæða, ég er með strengi from hell.  Strengirnir voru ekki að fullu komnir fram á miðvikudaginn, svo ég náði æfingunni þá en gærdagurinn og dagurinn í dag virðast ætla að líkjast eftirmálum maraþons.  Kílóin eru heldur farin að rjátla af manni og sýndi vigtin um síðustu helgi 85 kg (vigtun fer ætíð fram að loknu hlaupi og helst hálftíma potti líka).  Það verður fróðlegt að stíga á vigtina á morgun.

Ég sagði að ég mundi dæma þessa blessuðu ríkisstjórn okkar af verkunum.  Fyrsta verkið var ekki gott, en það var að nýta sér „heimild" til að útiloka, t.d. Rúmena frá frjálsri för til vinnu á Íslandi.  Þeir mega koma hingað sem ófrjálsir menn sem leiguþý, en sem sagt ekki ráða sér sjálfir.  Var þetta ekki einmitt það sem „Frjálslyndir" voru að predika og þótti ekki voða fínt fyrir nokkrum vikum síðan, jafnvel ef þeir voru ekki kallaðir rasistar fyrir vikið.  Fyrir þetta fær ríkisstjórnin stóran mínus hjá mér og þarf að gera margt óvenjugott til að komast í plús aftur.  Það er ekki nóg að gera eitthvað sem mér finnst sjálfsagt að þeir geri.


farinn..

Skellti mér í hlaupaskóna þegar ég kom frá Færeyjum í gær, þar sem ég hef verið undanfarna viku að vinna.  10,4 km lágu, á kannski ekki world record time, en það var nú ekki málið, heldur bara að taka létt skokk.  Nú er verkefnið hafið að takast á við Berlínarmaraþonið 30. september, helst þurfa liggja einir 1.200 km og  7 - 8 kg á bak og burt, gangi það eftir eru allir möguleikar opnir.  Þar sem ennþá eru 4 mánuðir til stefnu er um að gera að ana ekki um of.. auðvitað þarf ég ana pínulítið um of, bara ekki of mikið um of.. og þá fer þetta vel.

feitur...

Jæja þá er maður  bara orðinn feitur og pattaralegur og ekki sérlega maraþonlegur.  Það er alveg ljóst að hér þarf að eiga sér stað algjör viðsnúningur ef ekki á ílla að fara í Berlín í haust.  T.d væri væntanlega vænlegt til árangurs að hefja regluleg hlaup, en á því hefur verið alvarlegur misbrestur undanfarið.  Hér með er því heitið að regluleg hlaup muni hefjast frá og með í dag eða morgun og 2 kíló muni hverfa per mánuð fram að Berlínarmaraþoninu. 

Blessuð ríkisstjórnin já,eitthvað verður maður nú að tjá sig um hana.  En kannski fyrst, hvað í ósköpunum voru Steingrímur Joð og vinstrigræn að spá dagana eftir kosningarnar?   Þvílíkir hálfv... jæja maður á ekki segja svona, en svona var þetta bara. 

Það skal sko ekki vera nokkurt launungarmál að ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins var ekki efst á listanum hjá mér.   Mér finnst t.d. að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi  verið frá því  að vera slæmir í að vera skelfilegir.  Eru þeir allt í einu núna orðnir fínir?  Ég veit það ekki, en ok gefum þeim séns.  Síðan skil ég ekki af hverju Samfylkingin fékk ekki eða bað ekki um menntamálin?  Sjálfstæðismenn hafa stjórnað þeim í 16 ár, er það ekki bara bærilegt, er nauðsynlegt að þeir geri það enn ein 4 árin.  Mér finnst t.d. fínt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loks þorað að taka heilbrigðismálin, það mun þá allavega eitthvað gerast þar.  Ef ég væri Guðlaugur mundi ég ráða Sighvat Björgvins sem aðstoðarmann "med det samme".  Hvati var en efa besti heilbrigðisráðherra sem við höfum átt, en frammararnir voru að vísu fljótir að klúðra öllu hans góða starfi. 

En allt í lagi kannski  verður þetta besta ríkisstjórnin í sögu þjóðarinnar, en bara sorry.. Björn Bjarna og Árni Matt og Þorgerður Katrín... úha.. ég veit ekki sko....


helstu skammarstrik ríkisstjórnarinnar...

 Fyrsta alvöru æfingin hjá mér síðan í febrúar, hrikalega var það ljúft.  23 mínútur teknar á jöfnum hraða út og síðan sama snúið og sama leið heim og var þá rétt tæpar 20 mínútur.  Æfingin gerði gerði samtals 10,3 km en leiðin sem var innan tímamarkanna hefur verið um 9 km.  Get ekki logið því til að ekki finni ég þess stað að hafa tekið svolítið á því í gær, en af stað er ég farinn og vonandi halda lappirnar í því verkefni sem framundan er.

Jæja 2 sólarhringar í kosningar og því langr mig að benda á helstu skammarstrik ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks (í tilviljunarkenndriröð)

  • Aðferðafræði við sölu ríkisbankanna
  • Stuðningur við innrás í Írak
  • Ráðning Ólafs Barkar sem hæstaréttardómara
  • Öryrkjadómurinn
  • Eftirlaunafrumvarpið
  • Niðurfelling styrkveitingar til Mannréttindaskrifstofu Íslands
  • Þjóðlendumálin
  • Fjölmiðlafrumvarpið og viðbrögð við neitun staðfestingar forsetans
  • Biðlistarnir
  • Biðlistarnir.. ónei ég var búinn að nefna þá, en ok, þeir eru jú svo ótrúlega margir
  • Breytingin á lánareglum húsnæðislána
  • Kárahnjúkavirkjun
  • Falun gong liðar læstir inn í skólastofu
  • Allt ferlið við brottför varnarliðsins
  • Efnahagsóstjórnin
  • Meðferð á öryrkjum og ellilífeyrisþegum
  • Ráðningar flokksgæðinga
  • Launamunur kynjanna
  • Baugsmálið
  • Endurskoðun stjórnarskrárinnar.. eða ekki endurskoðun stjórnarskrárinnar
  • Landbúnaðarmálin
  • „þær hefðu sennilega samt orðið óléttar"

ríkisstjórnin er alltaf að hlusta..

Stórkostlegt hvað ríkisstjórninni er alltaf umhugað um samráð og vandaða málsmeðferð í öllum málum... eða ekki.  Varnarmál Íslendinga hafa verið á dagskrá allt þetta kjörtímabil og þar hefur ríkisstjórnin lagt sig í frama um að hafa ekkert samráð við stjórnarandstöðuna, þó jafnvel mætti skilja af stjórnarskránni að einmitt í þeim málum eigi að vera sérstakt samráð.  Allir muna eftir að það var alfa og omega að hér skildu vera 4 óvopnaðar herþotur, en á því höfðu vinir okkar vestra engan áhuga og á meðan var alls ekki hugað að öðrum kostum í stöðunni eins og stjórnarandstaðan benti ítrekað á.  Loks kom ríkisstjórnin sigri hrósandi frá Bandrikjunum með tímamótasamning í höndunum sem tryggja skildi varnir Íslands, að vísu án varna.  Bandaríkjamenn lofuðu sem sagt að koma ef búið væri að ráðast á okkur.  Við vorum sko sannarlega í góðum málum sagði ríkisstjórnin.

Hvað hefur komið á daginn, það er búið að ræða við allar þjóðir austan við Túrkministan að koma og passa okkur og að endingu hefur náðst lending með vinum okkar Norðmönnum og Dönum.  Allt er þetta gert án samráðs við stjórnarandstöðuna og alltaf er ríkisstjórnin jafn ánægð með sjálfan sig og hvernig hún heldur á málum.

Er ekki kominn tími á þetta lið og að fá fólk í stjórnarráðið sem ber  virðingu fyrir stjórnarskránni og góðum vinnubrögðum.


af stað farið..

Tók stutt hlaup í gær, 5,5km og var nú að vona að það ekki nein eftir mál, en svo vel slapp ég samt ekki.  Ári stífur í dag aftan í lærinu, en vonandi er það meira vegna æfingaleysis heldur en að hafi verið að skemma eitthvað.  Tek pott á þetta í dag en aftur út á morgun.  Veðurspáin er ótrúleg og því hreinlega ekki boðlegt að maður fari ekki að hlaupa á næstu dögum.


Hvað er Mogginn að spá..

 Leiðari Moggans í morgun:

„Ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið upp athyglisverða baráttuaðferð í þessum kosningum. Hún er ekki ný en hefur sjaldnast verið beitt í jafn ríkum mæli og nú.

Í stað þess að standa fast á sínu eins og algengara hefur verið hjá flokkum, sem eiga aðild að ríkisstjórn(lesist Sjálfstæðisflokkur), hlusta þeir nú á gagnrýnisraddir og koma til móts við þær.

Með þessu fá kjósendur á tilfinninguna, að ríkisstjórnin sé sveigjanleg og sé tilbúin til að hlusta á rök annarra"

Síðan hvenær var það dyggð á Mogganum að vera sveigjanlegur og ræða málin?  Er Mogginn búinn að gleyma öllu sem hann hefur sagt um umræðustjórnmál og hvernig endalaust hefur verið gert góðlátlegt grín að þeim.  Það hefur hingað til allavega verið dyggð allra dyggða að standa fast á sínu og kvika aldrei - ALDREI!

Ég mundi hafa önnur orð um aðferðafræði stjórnarflokkana en Mogginn.  Hvernig væri að nota orð eins og tvískinnungsháttur, að villa á sér heimildir, loforðaflaumur og jafnvel bara roluháttur.  Nú rétt fyrir kosningar hafa flokkarnir sem sagt séð ljósið og lofa öllu fögru.

Fólk látið ekki blekkjast af fagurgalanum, þegar stór hluti Sjálfstæðisflokksins gefur í skyn að það sé gott karríer move að gerast öryrki, þá ber það ekki með sér mikinn skilning á stöðu öryrkja.

Mæli ég svo um að við losum okkur við ríkisstjórnina.


Hvað er fólk að spá?

Hvað er fólk að spá?  Núna 3 vikum fyrir kosningar er Sjálfstæðisflokkurinn ennþá með ca. 40% fylgi.  Á það virkilega fyrir okkur að liggja að sitja uppi með þennan hagsmunaflokk enn eitt kjörtímabilið.  Hvað er fólk svona rosalega ánægt með?  Sturlu, framtíðarsýnina (hver er hún?),  efnhagsstjórnina, 20 prosenta gengissveiflu á ári, verðbólguna, sendiherraskipanirnar,  aðbúnað aldraðra og öryrkja, Árna Johnsen, biðlistana, öryrkjadóminn, Íraksstríðið, landbúnaðinn, vaxtastigið og eða heimóttarskapinn?  Það er af nógu af taka.

Fólk sem er búið að sitja í 16 ár ríkisstjórn hefur ekkert nýtt fram að færa, hvorki í vinnubrögðum eða hugsun, svo nú er tími til kominn að nýir vendir fái að njóta sín.  Allt er betra en íhaldið!


Er ríkið að niðurgreiða áfengið?

Ég lenti í umræðum um ÁTVR um helgina þar sem fólk var nú ekki sammála eins og gengur og nenni ekki að þylja upp hér, en eitt var ekki deilt um í málinu en það var að hagnaður hlyti að vera af sölu áfengis hjá ÁTVR - svo er ekki. 

Svona lítur Rekstrarreikningur ÁTVR út, sem heild (áfengi og tóbak) og síðan bara áfengi:

                                         Heild                                     Áfengi*

Sala                                  16,64 m                                10,5

Vörunotkun                       14,59                                      9,45

Laun og launat. Gj             0,87                                       0,67

Húsnæðiskostn                  0,24                                       0,24

Markaðs og dreif               0,14                                       0,14

Stjórnunar og skrifst         0,11                                       0,05

Annar rekstur                    0,14                                       0,07

Afskriftir                             0,10                                       0,10

Hagnaður/tap                 0,46                                     -0,22

 

Þetta eru ári sérstakar niðurstöður og mætti halda því fram að ríkið niðurgreiði áfengið með hagnaði af tóbaksölu um ca. 220 milljónir á ári.  Nú kunna einhverjir að segja að ég sleppi áfengisgjaldinu og það skekki myndina, en það er gjald sem einkaaðilar mundu innheimta með sama hætti og skila til ríkisins, svo eðlilega er það inn í vörunotkuninni.

Ég er á því að ríkið hafi ekkert að gera í áfengissölu frekar en sölu á lyfjum, rúgbrauði eða langferðabifreiðum. 


allt að gerast..

Jæja loks virðist hylla undir að þrautargöngu minni með meiðslin séu að taka enda.  Hljóp síðasta sunnudag léttan 8 km hring og fann eiginlega ekkert fyrir lærinu svo nú er bara að sýna skynsemi í að koma sér af stað.  Formið er greinilega orðið frekar slakt eftir um tveggja mánaða hreyfingarleysi, en vonandi kemur þetta fljótt ef regluleg hlaup geta hafist.

Fékk góðan póst í gær frá Garmin Europe UK, nýjan Garmin 305.  Keypti klukkuna á London maraþon messunni í fyrravor, en átti enga kvittun frá þeim kaupum.  Klukkan bilar svo í haust, þannig að ég taldi mig í frekar slæmri stöðu.  Garmin umboðið hér á landi vildi ekkert gera fyrir mig og þannig stóðu málin í vetur.  Hringdi í Garmin UK núna í mars og þeir sögðu mér bara að senda klukkuna og stutta lýsingu á vandamálinu.  Þetta gerði ég fyrir 2 vikum og í gær kom nýr Garmin í pósti.  Þetta kalla ég frábæra þjónustu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband